Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kynnti drög að nýjum þjónustusamningi við Ríkisútvarpið (RÚV) fyrir ríkisstjórn í gær. Þetta staðfestir ráðuneytið í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Samkvæmt lögum ber mennta- og menningarmálaráðherra að gera þjónustusamning við RÚV um fjölmiðlun í almannaþágu til fjögurra ára í senn. Þjónustusamningurinn, sem skilgreinir hlutverk, skyldur og umfang RÚV, rennur út í lok þessa árs. Nýr samningur mun taka gildi í byrjun næsta árs.
Samkvæmt ráðuneytinu eru skyldur RÚV undirstrikaðar í samningnum, sem og almannaþjónustuhlutverk þess, en sérstök áhersla er lögð á að RÚV styðji við og efli íslenska tungu og menningu landsins „enda er sterk staða tungumálsins ein af forsendum velsældar og menntunar.“
Ótímabært að svara hvers kyns breytingar verði á samningnum
Jafnframt er lögð áhersla á, samkvæmt ráðuneytinu, að RÚV verji ákveðnum hluta af tekjum til kaupa á efni frá sjálfstæðum framleiðendum ásamt því að setja reglur um viðskiptaboð.
Í svörun ráðuneytisins segir enn fremur að í raun sé ótímabært að svara því hvort miklar breytingar verði á samningnum þar sem hann sé nú í vinnslu.
Samkvæmt heimildum Kjarnans er á meðal þess sem undir er í þeirri vinnu fjármögnun starfsemi RÚV og hvort að fyrirtækinu verði áfram heimilt að sækja sér tekjur á samkeppnismarkaði.