Þingflokksformenn á Alþingi hafa komist að samkomulagi um þinglok en samkvæmt starfsáætlun þingsins átti síðasti þingfundur fyrir jólafrí að vera í dag. Það náði þó ekki fram að ganga og hafa samningaviðræður þokast áfram í vikunni milli þingflokksformanna og forseta Alþingis. Skrifað verður undir samning um þinglok seinna í dag.
Þingstörf halda sem sagt áfram í dag og á mánudaginn og er samkvæmt samkomulagi búist við því að síðasti dagur þingsins á þessu ári verði á þriðjudaginn næstkomandi. Hver flokkur í stjórnarandstöðunni fær þar með sitt mál til afgreiðslu fyrir jól.
Samkvæmt heimildum Kjarnans felst enn fremur í samningnum loforð um breytt og bætt verklag varðandi afgreiðslu þingmannamála. Þingflokksformenn munu hitta Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis, í janúar og fara yfir stöðuna.
Þingmannamál fái meira vægi
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir í samtali við Kjarnann að hann sé að mörgu leyti ánægður með þetta samkomulag. „Það sem mér finnst spennandi er að þingflokksformenn taki stöðuna eftir áramót og hittist með reglubundnum hætti eftir það,“ segir hann. Þannig fái þingmannamál meira vægi en honum hefur fundist ganga hægt hjá ríkisstjórninni að efna gefin fyrirheit um samvinnu.
„Svo verður það bara að koma í ljós hvort þetta virki en þetta er ágætis byrjun. Það er gott að búa til vettvang sem byggist á trausti,“ segir Logi.
Hann segir jafnframt að eftir þessa stuttu reynslu sína á þingi þá sé tilfinning hans sú að verklag á Alþingi sé að einhverju leyti fyrirfram tilbúið handrit sem byggist á tortryggni en hann telur að full ástæða sé til að breyta því. Stjórnarandstöðuflokkarnir ættu að hafa sinn rétt og sömuleiðis sína rödd. „Með því að gera þetta samkomulag þá er það viðleitni til að breyta þessu.“