Hugmyndin um að sameina tvo af kerfislægt mikilvægu bönkum landsins - sem eru Íslandsbanki, Arion banki og Landsbankinn - er í raun „algeggjuð“ út frá samkeppnissjónarmiðum.
Hið nýja bankakerfi, sem endurreist hefur verið á grunni innlendra eigna hinna föllnu banka, gefur enn síður tilefni til að fallast á sameiningar stærstu fyrirtækjanna á markaðnum heldur en það gerði fyrir 20 árum.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein Gylfa Magnússonar, dósents og fyrrverandi viðskiptaráðherra, í Vísbendingu, sem kom til áskrifenda síðastliðinn föstudag.
Í greininni segir meðal annars:
„Í áliti samkeppnisráðs um samrunann sem var fyrirhugaður fyrir um 20 árum er ítarlegur rökstuðningur og ýmsar tölur um markaðshlutdeildir á íslenskum fjármálamarkaði á þeim tíma. M.a. eru reiknaðar út Herfindahl-Hirschman vísitölur, HHI, um samþjöppun á ýmsum undirmörkuðum út frá stöðunni í lok árs 1999 (HHI vísitala er summa markaðshlutdeilda einstakra fyrirtækja í öðru veldi, margfölduð með 10.000). Vísitölurnar voru í flestum tilfellum rétt um 2.000 stig í lok árs 1999 en hefðu hækkað í ríflega 3.000 stig með samruna Landsbanka og Búnaðarbanka, þ.e. hækkað um meira en 1.000 stig. Helsta undantekningin var fasteignalánamarkaður þar sem Íbúðalánasjóður var þá með mjög mikla markaðshlutdeild en bankarnir litla.
Í öllum nágrannalöndum okkar hefðu samkeppnisyfirvöld lagst gegn samruna fyrirtækja við þessar aðstæður. Það gerði hið íslenska samkeppnisráð vitaskuld og ekkert varð úr samrunanum. Engin sérstök rök voru færð fyrir samrunanum önnur en kostnaðarhagræði, sem fyrirhugaðir samrunaaðilar mátu þá sem árlegan sparnað upp á 1.050 m.kr. Það samsvarar um 2,5 ma.kr. nú.
Eftir mikla rússíbanareið hefur íslenskt fjármálakerfi vitaskuld breyst allnokkuð frá aldamótum en rökin fyrir að leyfa samruna stórra banka eru miklu veikari nú en þá. Sérstaklega munar um að í stað þess að hafa fjóra aðila á markaðinum, þrjá þeirra nokkurn veginn jafnstóra, ef við teljum sparisjóðina sem einn aðila, og Landsbankann aðeins stærri þá eru þeir nú orðnir þrír, tveir jafnstórir og Landsbankinn sem fyrr aðeins stærri. Miðað við stærð efnahagsreiknings voru stóru bankarnir þrír með 97,0% bankakerfisins í lok síðasta árs og aðrir aðilar miklu minni, Kvika með 2,3% og fjórir sparisjóðir saman með 0,7%.“
Þá segir enn fremur að horfa þurfi með öðrum augum á stöðu mála, en einungis út frá stærðarhagkvæmni og samanburði við erlenda banka.
„Þrátt fyrir að hugmyndin um samruna tveggja af stóru bönkunum sé því léttgeggjuð, raunar algeggjuð, er samt gaman að velta fyrir sér rökunum. Þau eru í grundvallaratriðum stærðarhagkvæmni í bankarekstri, þ.e. að bankarnir séu of litlar einingar.
Ef við berum íslensku bankana þrjá hins vegar saman við banka í Bandaríkjunum þá sést að þetta er fjarri lagi. Í Bandaríkjunum eru skv. síðustu talningu 1.835 bankar með eignir umfram 300 milljónir dala, svo eru fjölmargir smærri en alls eru nú um 4.700 bankar í Bandaríkjunum. Meðalbankinn í Bandaríkjunum á þessum lista 1.835 banka er minni en sá minnsti af þeim íslensku, með eignir upp á 8,9 milljarða dala, meðan þeir íslensku eru með eignir á bilinu 10,0 til 11,7 milljarðar dala. Raunar væru allir íslensku bankarnir nálægt því að komast inn á topp 100 skv. stærð í Bandaríkjunum, væru í 111. til 120. sæti. M.ö.o. eru um 4.600 bandarískir bankar minni en sá minnsti af þessum þremur íslensku.
Íslensku bankarnir eru því alls ekki litlir í alþjóðlegum samanburði, þótt þeir séu auðvitað litlir miðað við stærstu banka heims. T.d. er stærsti bandaríski bankinn, JP Morgan, nær 200 sinnum stærri en sá stærsti hér, Landsbankinn.
Það verður reyndar að hafa ýmsa fyrirvara við svona samanburð, m.a. mismunandi uppgjörsstaðla, en það breytir því ekki að það er ekki hægt að nota þau rök fyrir sameiningu tveggja af stóru íslensku bönkunum að þeir séu óþægilega litlir, a.m.k. ekki í samanburði við bandaríska banka. Kvika og þó sérstaklega sparisjóðirnir fjórir eru hins vegar frekar litlar einingar. Sú stærð getur þó dugað til að standa undir sérhæfðri þjónustu en ekki alhliða bönkum. Þannig bjóða sparisjóðirnir fyrst og fremst einstaklingum og smærri fyrirtækjum þjónustu á tilteknum landsvæðum í stað þess að bjóða alhliða þjónustu um allt land.“
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.