Meirihluti velferðarnefndar telur vafaatriði að þingsályktunartillaga þingflokks Flokks fólksins um 300 þúsund króna lágmarksframfærslu almannatrygginga standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þingsályktunartillagan tekur einungis til örorku-, endurhæfingar- og ellilífeyrisþega en ekki annarra hópa eins og atvinnulausra, fólks í fæðingarorlofi eða vinnandi fólks. Á fundi nefndarinnar hafi líka komið fram það sjónarmið að með tillögunni væri verið að mismuna launafólki annars vegar og öryrkjum og öldruðum hins vegar.
Þá kom einnig fram að atvinnuleitendur og námsmenn væru oft og tíðum í svipaðri stöðu og þeir sem tillagan ætti að ná til og því væri ómögulegt að fara þá leið sem lögð er til í tillögunni.
„Þannig eru miklar efasemdir um að umrædd tillaga standist jafnræðisregluna. Ekki hafa verið færð rök fyrir því að taka skuli þessa hópa út fyrir sviga með svo sértækum aðgerðum,“ segir í áliti meirihlutans.
Stendur yfir endurskoðun
Tillagan var lögð fram í september og er Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, fyrsti flutningsmaður hennar. Auk hennar er hinn þingmaður flokksins, Guðmundur Ingi Kristinsson, skrifaður á hana.
Hún hljómar svona: „Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp þess efnis að fullur örorkulífeyrir, endurhæfingarlífeyrir og ellilífeyrir tryggi 300 þús. kr. lágmarksframfærslu á mánuði, skatta- og skerðingarlaust. Frumvarp þessa efnis verði lagt fyrir Alþingi fyrir lok yfirstandandi löggjafarþings.“
Í umsögn meirihluta velferðarnefndar, sem samanstendur af þeim þingmönnum stjórnarflokkanna sem sitja í nefndinni, er vakin athygli á því að yfir standi endurskoðun á almannatryggingakerfinu og að vonir séu bundnar við að afurðir þeirrar vinnu líti bráðum dagsins ljós. „Þess utan má nefna að settir hafa verið til hliðar fjármunir í kerfisbreytingar í bæði fjárlögum og fjármálaáætlun til að draga úr skerðingum á örorkulífeyri. Munu fjórir milljarðar kr. renna í það verkefni á komandi ári. Meðal annarra breytinga sem gerðar hafa verið undanfarin ár er að dregið hefur verið úr hinni svokölluðu krónu á móti krónu skerðingu. Þá hafa komugjöld aldraðra og öryrkja á heilsugæslu verið felld niður og vegna nýtilkominna breytinga er tannlæknaþjónusta við langveika aldraða og öryrkja á stofnunum þeim nú að kostnaðarlausu.“
Mikilvægt að tryggja lágmarksframfærslu
Í minnihlutaáliti þriggja stjórnarandstöðuþingmanna, Guðmundar Inga Kristinssonar, Helgu Völu Helgadóttur og Halldóru Mogensen, segir að umsagnaraðilar og gestir hafi flestir verið almennt hlynntir efni tillögunnar og að þeir hafi tekið undir að þörf væri að þörf væri á að tryggja viðunandi lágmarksframfærslu örorku- og ellilífeyrisþega og að hún tæki mið af launaþróun.
Í því samhengi var nefndinni meðal annars bent á að atvinnuleysisbætur væru orðnar umtalsvert hærri en lífeyrir almannatrygginga. Þótti það skjóta skökku við enda atvinnuleysisbætur hugsaðar sem skammtímaúrræði en lífeyrir almannatrygginga sem langtímaúrræði fyrir einstaklinga sem alla jafna eiga ekki nokkurn kost á að bæta hag sinn.
Í álitinu segir: „ Minni hlutinn tekur undir framangreint og telur að kjör lífeyrisþega hafi ekki náð að fylgja launaþróun sem hafi þar af leiðandi leitt af sér ákveðna kjaragliðnun. Þá bendir minni hlutinn á að lífeyrisþegar geta ekki nýtt sér sömu úrræði og launþegar, eins og verkfallsrétt. Að mati minni hlutans er mikilvægt að tryggja lífeyrisþegum lágmarksframfærslu, skatta- og skerðingarlaust. Þá er það mat minni hlutans að tillaga þessi feli í sér nauðsynlega kjarabót í þeim efnum og áréttar mikilvægi þess að frumvarp þess efnis verði lagt fram fyrir lok yfirstandandi löggjafarþings.“