Í nær öllum geirum atvinnulífsins, eða 22 af 29 samkvæmt flokkun Hagstofu Íslands, er störfum að fækka. Sé horft sérstaklega til iðnaðar, þar sem um 43 þúsund manns falla undir, er störfum að fækka nokkuð, og sætir það tíðindum.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins, um þróun mála í hagkerfinu. „Starfsemi fyrirtækja í iðnaði er fjölbreytileg á sviði framleiðsluiðnaðar, mannvirkjagerðar og hugverkaiðnaðar. Skapar greinin margvísleg störf á fjölmörgum sviðum samfélagsins bæði beint og óbeint. Fyrirtækin í greininni eru af ýmsum stærðum um allt land í útflutningi og þjónustu við innlendan markað. Í ljósi umfangs iðnaðar sætir það nokkrum tíðindum að fyrirtæki í helstu greinum iðnaðarins eru nú að fækka starfsfólki. Í iðnaði mældist í október sl. 3,7% samdráttur í fjölda launþega í framleiðsluiðnaði (án fiskvinnslu), 2,8% samdráttur í mannvirkjagerð og 2,6% samdráttur í hugverkaiðnaði. Samdrátturinn birtist m.a. í því að atvinnuleysi hefur aukist til muna í landinu en það mældist 4,1% í nóvember síðastliðnum samanborið við 2,5% í sama mánuði í fyrra,“ segir í útdrætti úr greiningunni, á vef Samtaka iðnaðarins.
Í greiningunni segir jafnframt, að vel hafi gengið að fjölga störfum í iðnaði frá 2010, þegar efnahagslífiðið tók aftur við sér eftir öldudal hrunstímans. Í greininni í fyrra voru starfandi um 9.814 fleiri en árið 2010, að því er segir í greiningunni. Það er tæplega eitt af hverjum fjórum
störfum sem sköpuðust í hagkerfinu á þessum tíma. „Hlutfallið er vísbending um stóran þátt greinarinnar í
hagvexti tímabilsins og framlag hennar til bættra efnahagslegra lífsgæða í landinu. Mikilvægt er að byggt
sé áfram á þessum grunni öflugs iðnaðar hér á landi með hagstjórn sem ver fyrirtæki og heimili fyrir niðurrifi
efnahagssamdráttar,“ segir ennfremur.