Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, hefur mælt fyrir fjölmiðlafrumvarpi, sem afgreitt hefur verið úr ríkisstjórn. Frumvarpinu hefur nú verið vísað til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, en formaður þeirrar nefndar er Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Lilja sagði í ræðu sinni, þegar hún mælti fyrir frumvarpinu, skömmu fyrir 22:00 í kvöld, að hún vonaðist til þess að stuðningurinn við einkarekna miðla, sem boðaður er í frumvarpinu, muni styrkja blaðamennskuna sem fag, rekstrarumhverfið á fjölmiðlamarkaði og einnig renna styrkari stoðum undir íslenskuna í fjölmiðlaumræðu.
Frumvarpið gerir ráð fyrir að 400 milljónir geti farið til einkarekinna miðla, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Frumvarpið hefur tekið breytingum frá því var fyrst dreift á þingi í vor. Sú breytta útgáfa, sem var kynnt á föstudag, er útþynnt útgáfa af þeirri hugmynd sem upphaflega var lagt upp með, og hefur verið ráðandi í ferli sem málið hefur nú verið í árum saman, að endurgreiða kostnað við rekstur ritstjórnar í samræmi við endurgreiðslur vegna framleiðslu kvikmynda og hljóðritunar á tónlist.
Í þynningunni fólst aðallega að endurgreiðsluhlutfallið er lækkað úr 25 prósent í 18 prósent. Þessi breyting hefur fyrst og síðast áhrif á minni fjölmiðla. Það er að segja alla fjölmiðla nema þá allra stærstu. Ljóst var að í henni fólst að væntur stuðningur til þeirra myndi dragast saman um tæpan þriðjung en að það sem myndi falla stærstu miðlunum í skaut myndi lítið breytast.
Í nýju útgáfunni er stefnt að því að heildarstuðningsgreiðslur yrðu 400 milljónir króna, eins og áður segir, en að hámarksgreiðsla til hvers og eins miðils yrði 50 milljónir króna.
Að minnsta kosti þrjú fjölmiðlafyrirtæki: Sýn, Árvakur (útgáfufélag Morgunblaðsins) og Torg (Útgáfufélag Fréttablaðsins) myndu fá hámarksgreiðslu og líklega Frjáls Fjölmiðlun (Útgáfufélag DV og tengdra miðla) líka, ef þau myndu standast þau skilyrði sem sett voru fyrir stuðningi úr ríkissjóði. Nýlega var greint frá því að Torg væri að eignast DV og DV.is.
Það eru skilyrði á borð við að vera með öll opinber gjöld í skilum, að fleiri en þrír starfi á ritstjórn, að fjölmiðillinn hafi starfað í að minnsta kosti ár og að hlutfall ritstjórnarefnis í honum sé að minnsta kosti 40 prósent.
Til viðbótar við þetta átti að greiða sérstakan stuðning, alls fjögur prósent af launum allra starfsmanna fjölmiðils sem falla undir lægra þrep núgildandi tekjuskattskerfis. Ljóst er að sá sérstaki stuðningur myndi fara að uppistöðu til stærstu miðlanna líka.
Kjarninn miðlar er eitt þeirra fjölmiðlafyrirtækja sem uppfylla þau skilyrði sem sett eru fyrir endurgreiðslu í frumvarpinu.