Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, segir að lögð hafi verið áhersla á það að birta strax þau gögn sem voru grunnurinn að vinnu blaðamanna RÚV, Stundarinnar og Al Jazeera, í tengslum við Samherjaskjölin svonefndu.
Kristinn segir á Facebook síðu sinni að það sé rangt, að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu, hafi haldið eftir póstum frá ákveðnu tímabili, líkt og Samherji hefur haldið fram. „Megináhersla var lögð á að birta strax þau gögn sem lágu til grundvallar greiningarvinnu þeirra blaðamanna, íslenskra og erlendra, sem unnið hafa fréttir á grunni gagnanna mánuðum saman. Þá strax var gefið út að WikiLeaks ætti eftir að birta fleiri gögn [...] Ég tók einnig þá ákvörðun að láta sigta út úr tölvupóstum og gögnum það sem ég taldi óþarfi að birta þar sem fjallað var meðal annars um nokkuð persónuleg mál núverandi og fyrrverandi starfsmanna Samherja, upplýsingar eins og launagreiðslur, atvinnuleyfi með ítarupplýsingum, skönnuð vegabréf og fleira í þeim dúr. Hugmyndin að þessu var tillitssemi við almenna starfsmenn fyrirtækisins sem ég er viss um að eru upp til hópa sómafólk,“ segir Kristinn á Facebook síðu sinni.
Kristinn vísar til bréfs Björgólfs Jóhannssonar, starfandi forstjóra Samherja, til starfsmanna, frá 5. desember, og segir að Samherji geti vel birt fleiri gögn um starfsemi sína ef fyrirtækið vilji.
„Það er örugglega þekking innan fyrirtækisins til að koma gögnunum með þessum hætti til okkar því þetta er ekki flóknara en að hlaða myndbandsupptöku á youtube,“ segir Kristinn.