„Ásmundur Friðriksson er lýðskrumari af verstu gerð. Heimsóknir hans út um allt kjördæmið eru ekkert annað en atkvæðaveiðar sem kosta himinháar upphæðir í akstursgreiðslur og skila engu í þingstörfin. Þetta bréf hans er algjör viðbjóður, ofan í allt það sem á undan hefur gengið þá dirfist hann til þess að leitast eftir refsingu á vegum Evrópuráðsþingsins gagnvart Sunnu. Þvílíka og aðra eins mannleysu (huglaus og ómerkilegur maður) hef ég aldrei á ævi minni hitt.“
Þetta segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, í stöðuuppfærslu á Facebook vegna frétta um að Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hafi sent Liliane Maury Pasquier, forseta Evrópuráðsþingsins, erindi og vakið athygli á því að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hafi gerst brotleg við siðareglur alþingismanna, fyrst þingmanna hér á landi. Brotið fólst í því að segja í sjónvarpsþætti að „rökstuddur grunur“ væri um að Ásmundur hefði dregið að sér fé með beiðnum um endurgreiðslur þingsins á aksturskostnaði sínum í gegnum tíðina.
Mikið var fjallað um akstur Ásmundar í byrjun árs 2018 en þann 9. febrúar sama ár var upplýst um að hann væri sá þingmaður sem fékk 4,6 milljónir króna endurgreiddar vegna aksturskostnaðar árið 2017. Það þýðir að hann fékk um 385 þúsund krónur á mánuði í endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna keyrslu sinnar. Alls keyrði Ásmundur 47.644 kílómetra árið 2017 og fékk endurgreitt frá ríkinu vegna kostnaðar fyrir þann akstur.
Í lok nóvember í fyrra endurgreiddi Ásmundur skrifstofu Alþingis 178 þúsund krónur vegna ferða sem honum hafði verið endurgreiddar á árinu 2017. Þetta gerði hann vegna þess að honum hafi orðið það ljóst „að það gæti orkað tvímælis að blanda saman ferðum mínum um kjördæmið og ferðum á sama tíma með tökufólki ÍNN.“
Snýst um að „hrauna yfir Ása“
Björn Leví hefur stöðuuppfærsluna á því að segja: „Svo það fari ekki á milli mála þá snýst þessi pistill um að hrauna yfir Ása.“ Hann varar fólk svo við því að hann muni nota orð sem séu „mjög lýsandi og nákvæm fyrir þennan sturlaða gjörning sem þetta ferli er orðið allt saman, allt út af því að Ásmundur Friðriksson misnotaði stöðu sína og aðgang að almannafé í gegnum starfskostnað.“
Hann rekur svo forsögu málsins, en það voru fyrirspurnir frá Birni Leví sem leiddu til þess að tölur um endurgreiddan aksturskostnað þingmanna voru loks birtar í byrjun árs 2018.
Segir að bréfið sé „viðbjóður“
Björn Leví segir að undir engum kringumstæðum geti það talist brot á siðareglum að segja satt. „Því skiptir mjög miklu máli hvort Sunna sagði satt eða ekki og meti nú hver fyrir sig miðað við játningu Ásmundar og endurgreiðslu hans á vafasömum kostnaðargreiðslum. Allir sem eru ekki hlutdrægir í málinu ættu að sjá hið augljósa, Sunna var nákvæm og málefnaleg í gagnrýni sinni í þessu máli. Meiri hluti forsætisnefndar brást hryllilega gagnvart þingmanni í minni hluta. Siðanefnd brást algerlega með því að meta ekki sannleiksgildi orðanna þrátt fyrir skipun meiri hluta forsætisnefndar.“
Björn Leví segir ofangreind orð ekki vera sögð í reiðikasti heldur af yfirlögðu ráði. Alþingismenn séu enda einungis bundnir við sannfæringu sína samkvæmt ákvæði stjórnarskráar. Hann geri sér þó grein fyrir því að einhverjir gætu skilið það sem svo að hann fari gegn grein siðareglna Alþingis um að ekki megi kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni. Hann telji hins vegar svo ekki vera. „Ég tel mig með þessum orðum vera að upplýsa almenning um skoðun mína og sannfæringu með gagnsæi á störf mín og þingsins. Ég nota til þess nákvæm orð til þess að koma meiningu minni á framfæri. Það má vel vera að það væri hægt að gera það á betri og ljóðrænni hátt eða eitthvað þess háttar en það eru ekki allir skáld eða rithöfundar sem geta beitt tungumálinu á frumlegri hátt án þess að hljóma móðgandi eða eitthvað þvíumlíkt. Ég er ekki einn þeirra og þarf að nota þau orð sem ég kann eins og ég skil þau. Ég skammast mín ekkert fyrir það. Kannski finnst þetta einhverjum óvægin gagnrýni. Þá er það bara nákvæmur skilningur á því sem ég er að reyna að segja. Ég skil ekki af hverju ég ætti að halda eitthvað aftur af skoðunum mínum í þessu máli. Það gerir nákvæmlega ekkert fyrir heiðarleika að halda aftur af gagnrýni í þessu máli, svo alvarlegt er það.“
Fannst mikilvægt að gera viðvart um brotin
Ásmundur sagði í samtali við Morgunblaðið í morgun að honum finnist mikilvægt að gera Evrópuráðsþinginu viðvart um brot Þórhildar Sunnu. Hún hafi ekki rækt „störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika samkvæmt áliti forsætisnefndar og siðanefndar.“ Þórhildur Sunna er varaformaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins og formaður laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins.
„Evrópuráðsþingið hefur ítrekað lagt mikla áherslu á það við aðildarríki sín að þau setji siðareglur fyrir alþingismenn sem feli jafnframt í sér viðurlög. Þá hefur Evrópuráðsþingið sjálft sett sér siðareglur þar sem kveðið er á um viðurlög við brotum, til dæmis skerðingu réttinda innan þingsins,“ sagði Ásmundur og benti jafnframt á að Evrópuráðsþingið hafi áður látið sig varða skipan Íslandsdeildar.
Svo það fari ekki á milli mála þá snýst þessi pistill um að hrauna yfir Ása. Ég mun nota orð sem eru mjög lýsandi og...
Posted by Björn Leví Gunnarsson on Wednesday, December 18, 2019