Frá því að lífeyrissjóðir landsins komu af fullum krafti inn á húsnæðislánamarkaðinn að nýju haustið 2015 hafa útlán þeirra til húsnæðiskaupa næstum þrefaldast. Þau voru 171,5 milljarðar króna í október 2015 en í sama mánuði fjórum árum síðar voru þau orðin 497,5 milljarðar króna.
Hjá innlánsstofnunum, bönkunum og sparisjóðum, hefur vöxturinn verið mun hægari. Þar eru langfyrirferðamestir stóru viðskiptabankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki.
Frá október 2015 og fram til sama mánaðar í ár jukust útlán bankanna til húsnæðiskaupa úr 733 milljörðum króna í 960 milljarða króna, að teknu tilliti til sölu Arion banka á 50 milljarða lánasafni til Íbúðalánasjóðs í haust.
Upphæð íbúðalána sem eru í eigu innlánsstofnana, þ.e. banka og sparisjóða, er því 31 prósent hærri í dag en hún var fyrir fjórum árum síðan.
Til viðbótar við þessar tvær tegundir lánveitendenda þá lánar Íbúðalánasjóður líka húsnæðislán, en ekki á samkeppnishæfum kjörum.
Þetta má lesa út úr nýjustu hagtölum Seðlabanka Íslands um útlán innlánsstofnanna og lífeyrissjóða.
Óvertryggð lán sækja á
Kjarninn greindi frá því á miðvikudag að verðtryggð lán lífeyrissjóða og innlánsstofnana væru í dag mun lægra hlutfall lána lífeyrissjóða og fjármálastofnana til húsnæðiskaupa en þau hafa nokkru sinni áður verið. Samkvæmt hagtölum Seðlabanka Íslands voru 78,7 prósent útlána lífeyrissjóða til sjóðsfélaga sinna verðtryggð lán í október síðastliðnum en 62,9 prósent útlána innlánsstofnana.
Til samanburðar hófu lífeyrissjóðirnir ekki að bjóða óvertryggð lán fyrr en í október 2015 og því hefur breytingin á útlánum þeirra á síðustu fjórum árum. Hjá bönkunum voru 72 prósent allra útlána sem voru með veði í íbúð verðtryggð í október 2015 en í dag er það hlutfall komið niður í 62,9 prósent.
Metútlán í október
Kjarninn greindi frá því 6. desember síðastliðinn að lífeyrissjóðir landsins hefði aldrei lánað sjóðsfélögum sínum meira í húsnæðislán en þeir gerðu í október síðastliðnum. Þá námu sjóðsfélagslán sjóðanna 13,9 milljörðum króna og jukust um 65 prósent á milli mánaða. Fyrra útlánamet lífeyrissjóðanna var sett í júní 2017 þegar þeir lánuðu rúmlega ellefu milljarða króna til húsnæðiskaupa. Því voru útlánin í október 26 prósent hærri en í fyrri metmánuði.
Auk þess hafa aldrei verið tekin fleiri lán hjá lífeyrissjóðum en í tíunda mánuði ársins 2019, þegar þau voru 1.144 talsins. Fyrra metið var sett í ágúst 2017 þegar útlánin voru 789 talsins. Útlánin í október voru því 45 prósent fleiri en í fyrri metmánuði. Allt ofangreint bendir til þess að töluvert líf sé í húsnæðismarkaðnum um þessar mundir.