Ríkisfyrirtækið Pósturinn mun hætta að selja gjafavörur, sælgæti, gos, ritföng og aðrar vörur sem seldar hafa verið á pósthúsum fyrirtækisins frá og með 1. febrúar næstkomandi. Eftir breytinguna mun Pósturinn einungis bjóða upp á vörur til sölu sem tengjast starfsemi þess með beinum hætti, eins og kassa, umslög, pökkunarvörur og frímerki.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póstinum.
Þar er haft eftir Birgi Jónssyni, sem tók við forstjórastöðunni hjá Póstinum fyrr á þessu ári, að þegar Pósturinn hafi byrjað á vörusölu á sínum tíma hafi hugmyndafræðin snúist um það að viðskiptavinir gætu fyllt upp í næsta kíló en verðskrá póstfyrirtækja í pakkasendingum er byggð upp á kílóverðum. „Það var því talið vera viðbótarþjónusta við viðskiptavini að þeir gætu keypt sælgæti eða aðrar tækifæris vörur til að geta nýtt sendinguna að fullu. Fljótlega var svo byrjað að bæta við öðrum vörum en rekstur pósthúsa var afar þungur á tímabili. Nú höfum við hins vegar ákveðið að hætta vörusölu en ástæðurnar fyrir því eru tvær. Sú fyrri er sú að það er töluverð hagræðing fólgin í því að hætta vörusölu en mikil umsýsla og utanumhald er í kringum þessar vörur.
Umdeilt endastöðvargjald
Pósturinn hefur verið í miklu hagræðingarferli á undanförnum misserum til að bregðast við ósjálfbærri stöðu sem komin var upp í rekstri hans, og hafði fengið að festa rætur á undanförnum árum. Á meðal þess sem gert hefur verið er að grípa til uppsagna starfsfólks og breyta afhendingarmáta með því að fjölga t.d. póstboxum.
Í september síðastliðnum voru samþykktar breytingar á lögum um póstþjónustu sem heimiluðu Póstinum að innheimta svokallað endastöðvagjald. Í kjölfarið hækkaði móttökugjald erlendra póstsendinga til muna. Samkvæmt umfjöllun Neytendasamtakanna um málið kostar nú að lágmarki 850 krónur að fá sendingar fá Evrópulöndum og 1.050 krónur að lágmarki fyrir sendingar frá löndum utan Evrópu. Þetta hefur haft áhrif á að neytendur panta minna af ódýrari vöru frá t.d. Kína en áður.
Neytendasamtökin hafa mótmælt gjaldinu harðlega og hafa meðal annars beint málinu til Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem samtökin telja að gjaldið gæti brotið í bága við EES samninginn.