Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, segir í viðtali við Morgunblaðið í dag, að ekki sé tímabært að slaka á eiginfjárkröfum í bankakerfinum.
Nokkur umræða hefur verið um það á fjármálamarkaði að ekki gangi nægilega vel að miðla lægri vöxtum til heimila og fyrirtækja, þar sem háar eiginfjárkröfur á banka geri þeim erfitt um vik við að bjóða góð vaxtakjör.
„Að einhverju leyti tosast þetta á en verkefnin sem verið er að fást við eru ólík. Peningastefnan miðar að því að örva hagkerfið, hitt snýst um að bankarnir séu vel fjármagnaðir þegar við komum að niðursveiflunni og að öryggi þeirra sé tryggt. Þetta kann að vega gegn peningastefnunni en við verðum að finna rétt jafnvægi þarna á milli,“ segir Ásgeir í viðtali við ViðskiptaMoggann.
Stýrivextir Seðlabanka Íslands eru nú 3 prósent, en verðbólga mælist 2,7 prósent. Vextir eru því sögulega með lægsta móti þessi misserin.
Í viðtalinu segir Ásgeir að stór gjaldeyrisforði Seðlabankans hjálpi til við að auka tiltrú á bankakerfinu. „Seðlabankinn er núna með 800 milljarða gjaldeyrisforða. Það hefur skotið nýrri tiltrú undir krónuna. Við sáum það síðastliðinn vetur þegar kjarasamningar voru opnir og vandræði WOW komu upp að krónan gaf lítið eftir. Botninn hvarf ekki undan gjaldmiðlinum eins og oft hefur gerst hérlendis. En það er margreynt lögmál að þegar tiltrú hverfur á gjaldmiðlum þá reyna allir að hlaupa burt með peningana sína. Það hefur ekki gerst,“ segir Ásgeir.
Íslenska ríkið er umsvifamest sem eigandi á fjármálamarkaði, en ríkið á bæði Íslandsbanka og Landsbankann, auk þess að vera eigandi Íbúðalánasjóðs. Eiginfjárstaða íslenskra banka er sterk í alþjóðlegum samanburði, en á undanförnum árum hefur hún verið á bilinu 20 til 25 prósent, lengst af.