„Maður hefði nú að fyrra bragði ekki búist við að samtök á borð við Félag atvinnurekenda og Samtök iðnaðarins sem, í orði kveðnu a.m.k., haldið hafa á lofti sjónarmiðum viðskiptafrelsis og frjálsrar samkeppni, sameinist um að leggja stein í götu frumvarps, sem hafði það að raunverulegu markmiði að færa íslenskum neytendum ábata upp á fleiri hundruð milljónir króna á ári.“
Þetta skrifar Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann fjallar um nýsamþykkt lög um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um tollkvóta fyrir innfluttar landbúnaðarafurðir.
Andrés segir í grein sinni að til þessa hafi neytendur ekki notið markaðsverðs á innfluttri landbúnaðarvöru en að frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem lagt var fram um fyrrnefndar breytingar hafi haft alla burði til að gera það að veruleika, neytendum til hagsbóta.
Vörslumenn sérhagsmuna víða
Í byrjun desember, þegar leið að því að frumvarpið yrði afgreitt úr þingnefnd, gerðist hins vegar sá fordæmalausi atburður af ellefu hagsmunasamtök, sem sum hver hafa nánast ætið verið á sitt hvorri hlið umræðunnar í málum sem þessum, sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu, þar sem sagði að ekki væri hægt að samþykkja frumvarpið í núverandi mynd.
Samtökin sem skrifuðu undir yfirlýsinguna voru Bændasamtök Íslands, Félag atvinnurekenda, Félag eggjabænda, Félag kjúklingabænda, Félag svínabænda, Landssamband kúabænda, Landssamband sauðfjárbænda, Neytendasamtökin, Samband garðyrkjubænda, Samtök iðnaðarins og Sölufélag garðyrkjumanna.
Neytendasamtökin drógu síðar sína undirskrift til baka.
Andrés segir í grein sinni að þingheimur hafi, í skjóli þessa atburðar, gert víðtækar breytingar á frumvarpinu sem tekið hafi mjög mið af sérkröfum innlendra framleiðenda en verið á kostnað neytenda.
Í niðurlagi greinar hans segir: „Það er til kínverskur málsháttur sem segir: Það heyrist jafnan meira í því sem þú gerir en í því sem þú segir. Vörslumenn sérhagsmuna leynast greinilega víðar en margur heldur.“
Segir samþykkt málsins fagnaðarefni
Alþingi samþykkti breytt frumvarp síðastliðinn þriðjudag. Í fréttatilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að markmið frumvarpsins hafi verið að koma ávinningnum sem skapast með úthlutun tollkvóta í meira mæli til neytenda í formi lægra vöruverðs. „Með samþykkt frumvarpsins verður núgildandi úthlutunaraðferð tollkvóta breytt með þeim hætti að stuðst verður við svokallað jafnvægisútboð. Í því felst að lægsta samþykkta tilboð útboðs ákvarðar verð allra samþykktra tilboða, þ.e. allir sem fá úthlutað tollkvóta greiða það verð sem lægsta samþykka tilboð hljóðaði upp á. Þannig er gróflega áætlað að með breytingunni muni tekjur ríkissjóðs vegna útboða á tollkvótum lækka um 240-590 milljónir króna á ári.“
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagðist hafa talið núgildandi fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta bæði óeðlilegt og ósanngjarnt, sérstaklega fyrir hagsmuni neytenda. „Því er samþykkt Alþingis á þessu frumvarpi sérstakt fagnaðarefni enda má gera ráð fyrir að kostnaður vegna útboða lækki talsvert. Þá verður allt regluverk um úthlutun tollkvóta sanngjarnara og einfaldara til hagsbóta fyrir neytendur, framleiðendur og innflytjendur matvæla.“