Íslenska hagkerfið gengur nú í gegnum aðlögun eftir fjögurra ára mikið hagvaxtarskeið, og mun hagvöxtur verða hóflegur á næstu árum - í kringum 2 prósent. Erfiðleikar í heimsbúskapnum, meðal annars minni hagvöxtur í heiminum og spenna vegna tollastríða, geta leitt til erfiðleika fyrir Ísland.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stöðu mála á Íslandi, en hún var birt í dag.
Í skýrslunni segir enn fremur að nauðsynlegt sé að bregðast hratt við því að Ísland hafi verið sett á gráan lista FATF, vegna veikra varna gegn peningaþvætti, og vinna þurfi skipulega að því að efla regluverk og kerfislæga þætti.
Í skýrslunni segir enn fremur að nauðsynlegt sé fyrir Ísland, að efla menntakerfið - til framtíðar litið - og styðja við það meðal annars með betri kennaramenntun og stuðningi við kennara, og einnig að gera meira til að hjálpa til við aðlögun innflytjendabarna á Íslandi. Með því móti megi byggja upp betri lífskjör til framtíðar litið.
Í skýrslunni er stjórnvöldum hrósað fyrir viðbrögðin við þeirri stöðu sem kom upp, þegar ferðaþjónustan tók dýfu - með gjaldþroti WOW air og kyrrsetningu á hluta flota Icelandair. Tekist hafi að viðhalda sveigjanleika í hagkerfinu, og sterk staða notuð til að byggj upp til framtíðar.
Þrátt fyrir það, þá er ekki gert ráð fyrir miklum hagvexti á Íslandi á næstu misserum, en atvinnuleysi hefur aukist nokkuð að undanförnu og mælist nú 4,3 prósent.
Spár gera ráð fyrir að hagvöxtur á þessu ári verði lítill eða enginn, eða á bilinu -0,4 til 0,2 prósent, en það er mikil breyting frá því í fyrra þegar hann mældist 4,6 prósent.