Ólafur Ragnar Grímsson, þá forseti Íslands, taldi að Jóhanna Sigurðardóttir væri eini stjórnmálamaðurinn sem gæti tekið við og leitt ríkisstjórn í janúar 2009, eftir bankahrunið og á meðan að búsáhaldarbyltingin stóð sem hæst. Hún naut þá 66 prósent stuðnings í könnunum.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í bókinni Hreyfing rauð og græn – Saga VG 1999-2019 eftir Pétur Hrafn Árnason sagnfræðing, sem kom út fyrr í þessum mánuði í tilefni af 20 ára afmæli Vinstri grænna. Ólafur Ragnar er á meðal þeirra sem höfundurinn tók viðtal við þegar hann vann verkið.
Ekki til neitt AGS til að endurreisa traust
Í janúar 2009 stóð ríkisstjórn Geirs H. Haarde, sem var samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, á brauðfótum og miklar þreifingar voru þegar byrjaðar á milli manna um nýjan valkost til að takast á við þá fordæmalausu stöðu sem var uppi í samfélaginu eftir hrunið.
Í bókinni segir Ólafur Ragnar að Jóhanna, sem var ekki formaður Samfylkingarinnar á þessum tíma heldur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hafi á þessum tíma verið „eini stjórnmálamaðurinn sem gæti skapa ró í samfélaginu, fengið þjóðina til að hætta að kveikja elda á hverju kvöldi og að lögreglan þyrfti ekki að verja Alþingi, Seðlabanka og Stjórnarráðshúsið. Í kringum áramótin 2008-9 var ég ekki í vafa um að við myndum ná að klóra okkur fram úr þessum efnahagsvandræðum, ég þóttist viss um að það tækist með tímanum.
Þegar ég hins vegar fór fram úr á morgnana óttaðist ég mest að þetta samfélag væri að tætast í sundur, menningarlega, samfélagslega og lýðræðislega. Það er ekki til neitt AGS til að endurreisa traust á grunnstoðum samfélaga. Til að eygja von um endurreisn yrði að „manipulera“ atburðarás til að gera Jóhönnu að forsætisráðherra.“
Steingrímur sá engan annan sem gæti forðað landinu frá þroti
Steingrímur J. Sigfússon, þá formaður Vinstri grænna, hélt því opnu að taka sjálfur að sér að verða forsætisráðherra en komst síðar að þeirri niðurstöðu að hann þyrfti að vera annars staðar og að Jóhanna væri besti kosturinn fyrir þjóðina í því andrúmslofti sem var. „Þá var ég upptekinn af stöðu efnahagsmála og því ljóst að ég tæki þennan málaflokk að mér. Ég hreinlega sá engan annan fyrir mér í að taka það verk að sér að forða landinu frá gjaldþroti og það væri eiginlega mín skylda að gera það sjálfur.“
Steingrímur lýsir svo því hversu mikil átök og vinna hefðu fylgt næstu dögum. Frá 20. janúar 2009 og á næstu þremur vikum léttist Steingrímur til að mynda um sjö kíló.
Minnihlutastjórn Jóhönnu og Steingríms þurfti að sitja í skjóli einhvers fram að kosningum, annars kæmi hún engu í gegn. Það skjól bauðst Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem nokkrum dögum áður hafði verið kosinn formaður Framsóknarflokksins, til að veita.
Þegar kom að þvi að formgera þann stuðning þá neitaði Sigmundur Davíð hins vegar að undirrita samstarfsyfirlýsingu og vildi hafa stuðning sinn óformlegri.
Steingrímur segir í bókinni að þetta hafi verið „dæmigerður Sigmundur Davíð, þá var að renna upp fyrir honum að með því tæki hann meiri ábyrgð og gæti ekki haft opin glugga á bak við sig eins og honum er tamt. Ég spurði hvort hann vildi ekki einu sinni koma til vikulegra funda með okkur og hann svaraði, „jú, við getum svo sem haldið þá.“
Jóhanna fékk bakþanka um myndum stjórnarinnar við þessi tíðindi og kvartaði yfir því í símtali við Ólaf Ragnar að það væri „vonlaust að eiga við Sigmund Davíð Gunnlaugsson.“
Á endanum var hins vegar talað um fyrir henni og minnihlutastjórninni komið á. Hún breytist svo í meirihlutastjórn í kosningunum 2009, sem sat fram til ársins 2013 þegar hún kolféll.
Steingrímur segir í bókinni að hann velti enn fyrir sér hvers konar flygi Vinstri græn hefðu fengið í kosningunum 2009 ef flokkurinn hefði ekki skorið Samfylkinguna út úr klóm Íhaldsins. „Samfylkingin hafði þá misst allan trúverðugleika sem þetta mótvægisafl við Sjálfstæðisflokkinn og hefur ekki endurheimt hann.“