Mynd: VG

Nafnlausi áróðurinn gegn Vinstri grænum og „Skatta-Kötu“ virkaði

Í nýrri bók sagnfræðings er sögð 20 ára saga Vinstri grænna. Þar er meðal annars fjallað ítarlega um tímabilið frá þingkosningunum í október 2016 og fram til febrúar 2019 og rætt við marga stjórnmálamenn um hvernig það tímabil hafi verið. Í þeim samtölum koma fram áður óbirtar skoðanir og upplýsingar.

Nafn­laus áróður gegn Katrínu Jak­obs­dóttur og Vinstri græn­um, sem birtur var á sam­fé­lags­miðlum og ann­ars staðar á net­inu í aðdrag­anda kosn­ing­anna 2017, virk­aði. Það er mat Katrínar sjálfrar sem bendir á að fylg flokks­ins hafi fallið jafnt og þétt eftir að áróð­ur­inn, mynd­bönd sem snér­ust um „„Skattaglöðu Skatta-Kötu“, hóf að birt­ast. Enn þann dag í dag hefur ekki verið opin­berað hverjir stóðu á bak­við félags­skap­inn Kosn­ingar 2017, sem bjó til áróð­urs­mynd­böndin og greiddi fyrir mikla dreif­ingu þeirra.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í bók­inni Hreyf­ing rauð og græn – Saga VG 1999-2019 eftir Pétur Hrafn Árna­son sagn­fræð­ing, sem kom út fyrr í þessum mán­uði í til­efni af 20 ára afmæli Vinstri grænna. 

Þar er meðal ann­ars fjallað ítar­lega um tíma­bilið frá þing­kosn­ing­unum í októ­ber 2016 og fram til febr­úar 2019. Í þeim kosn­ingum voru sjö flokkar kjörnir á þing, sitj­andi stjórn kol­féll og engin sýni­leg stjórn var í kort­un­um. Því þurfti að leita óhefð­bund­inna leiða til að mynda rík­is­stjórn og úr varð stjórn­ar­kreppa sem stóð fram í jan­úar 2017. 

Leið­in­leg­asti tím­inn á póli­tískum ferli Katrínar

Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­maður Vinstri grænna, segir í bók­inni að stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­urnar sem áttu sér stað eftir kosn­ing­arnar 2016, og dróg­ust í marga mán­uð­i,  hafi verið mjög óvenju­legur tími í íslenskri póli­tík. „Ég myndi segja að hann hafi verið sá leið­in­leg­asti sem ég hef upp­lifað á mínum póli­tíska ferli. Ég eig­in­lega lærði í þessum stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræðum – í eitt skipti fyrir öll – að maður þarf mjög að gæta þess hverjum maður treystir í póli­tík. Þetta er stað­reynd sem stjórn­málin standa frammi fyrir eftir hrun­ið, traust milli manna er af mjög svo skornum skammti.“

Hún greinir einnig frá því að í síð­ari til­raun­inni til að mynda fimm flokka rík­is­stjórn Vinstri grænna, Sam­fylk­ing­ar, Pírata, Bjartrar fram­tíðar og Við­reisn­ar, hafi Vinstri grænum og Við­reisn aldrei samið,enda hefðu margir innan Vinstri grænna talið að Við­reisn væri harður hægri­flokkur sem stæði þeim jafn­vel fjær á hinu póli­tíska sviði en Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn. Bene­dikt Jóhann­es­son, þáver­andi for­maður Við­reisn­ar, hefði meðal ann­ars hringt í hana og með ýmsum rökum gert nokk­urs konar til­kall til að leiða næstu rík­is­stjórn. 

Svan­dís Svav­ars­dóttir segir í bók­inni að margir í Við­reisn hefðu haft „ein­lægan áhuga á þessu fimm flokka mynstri. En vissu­lega er Við­reisn hægri­flokkur sem hefur m.a.s. meiri áhuga á að einka­væða í heil­brigð­is­geira en sjálf­stæð­is­menn og þar við bætt­ist að skorti á heil­indi á milli manna.“

Eftir þetta hófst sam­tal milli Fram­sókn­ar­flokks og Vinstri grænna um að skoða rík­is­stjórn með Sjálf­stæð­is­flokki. Í bók­inni segir hins var að á „fundi milli for­ystu VG og Fram­sóknar 3. jan­úar [2017] fékk hins vegar Lilja Alfreðs­dóttir skeyti um að þetta væri um sein­an, rík­is­stjórn Bjarna Bene­dikts­sonar með aðild Við­reisnar og Bjartrar fram­tíðar væri að fæð­ast. Lengsta stjórn­ar­kreppa frá árinu 1947 var á enda.“ 

Hægt að sjá úr flug­vél hve slæm stemmn­ing var í stjórn­inni

Haft er eftir Katrínu í bók­inni að það hafi mátt greina það strax við stefnu­ræðu hins nýja for­sæt­is­ráð­herra, 24. jan­úar 2017 eða 13 dögum eftir að hún tók við völd­um, að stemmn­ingin í nýja stjórn­ar­lið­inu hafi ekki verið góð. Í bók­inni seg­ir: „Innan Bjartrar fram­tíðar voru strax frá upp­hafi svo miklar efa­semdir um þennan ráða­hag, einkum í gras­rót og á sveit­ar­stjórn­ar­sviði, að það yrði krafta­verki næst að þessi stjórn með ein­ungis eins manna meiri­hluta héldi út í fjögur ár. 

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar varð ekki langlíf.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Eftir erf­iða fyrstu mán­uði, og langt sum­ar­frí þar sem rík­is­stjórnin hélt ekki fund í 30 daga, var komið að stefnu­ræðu Bjarna Bene­dikts­sonar 13. sept­em­ber 2017. Lands­rétt­ar­málið og Upp­reist æru-­málið höfðu verið alls­ráð­andi um sum­arið og valdið stjórn­inni marg­hátt­uðum erf­ið­leik­um. Í bók­inni er haft eftir Katrínu að það „þetta sept­em­berkvöld á Alþingi hefði mátt sjá úr flug­vél hve stemmn­ingin í stjórn­ar­lið­inu var döp­ur“. Katrín seg­ist hafa hugs­að: „Þessi stjórn er ekki að fara að lifa leng­i“.

Stjórn­ar­sam­starf­inu slitið

Dag­inn eft­ir, 14. sept­em­ber úrskurð­aði kæru­nefnd upp­lýs­inga­mála að það ætti að afhenda fjöl­miðlum upp­lýs­ingum um hverjir hefðu skrifað undir með­mæla­bréf fyrir þá sem höfðu fengið upp­reist æru. Í ljós kom að faðir Bjarna Bene­dikts­sonar hefði verið einn þeirra sem gerði slíkt fyrir dæmdan barn­a­níð­ing. Sig­ríður And­er­sen, þáver­andi dóms­mála­ráð­herra, greindi frá því síðar sama dag að hún hefði fengið upp­lýs­ingar um þetta í júlí 2017 og sagt Bjarna Bene­dikts­syni frá því sam­stund­is. 

Björt fram­tíð taldi Sjálf­stæð­is­flokk­inn hafa orðið upp­vís að trún­að­ar­bresti og ákvað á stjórn­ar­fundi þá um nótt­ina að kjósa raf­rænt um hvort að slíta ætti stjórn­ar­sam­starf­inu. Það var sam­þykkt með 87 pró­sent greiddra atkvæða. 

15. sept­em­ber dæmdi Hér­aðs­dómur Reykja­víkur að Sig­ríður hefði brotið gegn lögum þegar hún skip­aði dóm­ara við Lands­rétt. Það bætti gráu ofan á svart. 

Bjarni Bene­dikts­son hafði fá önnur úrræði en að boða til nýrra kosn­inga. Í lok októ­ber 2017 var svo kosið í annað sinn á einu ári. 

Í kosn­ingar með tóman kosn­inga­sjóð

Í bók­inni kemur fram að kosn­inga­sjóður Vinstri grænna hafi verið „svo gott sem tóm­ur“ þegar þetta gerð­ist og ein­ungis sex vikur í kosn­ing­ar. 

Katrín segir þar að hún líti ekki glað­beitt aftur til þess­arar kosn­inga­bar­áttu. „Þessi kosn­inga­bar­átta var eins og að taka þátt í sjón­varps­þætti í end­ur­tekn­ingu, sömu sviðs­mynd­irn­ar, sömu stef­in, sömu spyrl­arnir og sömu spurn­ing­arn­ar. Þó var sú nýbreytni nú að mörgum reið á að vita „hvaða starf­hæfu rík­is­stjórn væri hægt að mynda sem situr út kjör­tíma­bil­ið?“ Reyndum við þá að gera út á þá ímynd að vera afl stað­festu í íslenskri póli­tík.“

Í kosn­inga­bar­átt­unni var áhersla Vinstri grænna á Katrínu og fyrir lá að stefna flokks­ins sner­ist um að hún ætti að leiða næstu rík­is­stjórn sem for­sæt­is­ráð­herra.

Nafn­lausi áróð­ur­inn virk­aði

Í bók­inni er farið yfir það að þegar flokkur leggi slíka ofurá­herslu á eina per­sónu sé alltaf hætta á því að póli­tískir and­stæð­ingar reyni að sverta orð­spor þess ein­stak­lings. Það hafi reynst raunin í kosn­inga­bar­átt­unni 2017. 

Birt­ing­ar­myndin var meðal ann­ars mynd­bönd, frá nafn­lausri áróð­urs­síðu sem bar nafnið Kosn­ingar 2017, með „Skattaglöðu Skatta-Kötu“ sem klif­aði á skatta­hækk­unum og hót­aði „eigna­upp­töku að sós­íal­ískri fyr­ir­mynd. Í bók­inni seg­ir: „Í lok eins mynd­bands­ins runnu sam­klippur úr ræðum Katrínar á Alþingi inn í níð frá bús­á­hald­ar­bylt­ingu og myndum af upp­lausn­ar­á­standi með brenn­andi íslenska krónu í mið­punkt­i.“ 

Mynd­bönd­unum var dreift með ærnum til­kostn­aði á Face­book og YouTu­be. Áhorfið mæld­ist í tugum þús­unda hið minnsta. 

Á meðal þeirra mynda sem dreift var í aðdraganda kosninganna 2017.
Mynd: Skjáskot

Katrín er spurð að því í bók­inni hvort þessi áróður hafi haft áhrif’? Hún segir að hún sé nokkuð viss um að svo hafi ver­ið. „Til­lögur VG í skatta­málum voru gerðar tor­tryggi­legar og það hafði heil­mikil áhrif. Fylgið féll jafnt og þétt og að lenda í slíkri vörn strax í upp­hafi er þrælerfitt í kosn­inga­bar­átt­u.“

Fylgi VG, sem hafði mælst í kringum 25 pró­sent í lok sept­em­ber, fór að falla. Á end­anum fékk flokk­ur­inn 16,9 pró­sent, sem gerði hann að næst stærsta flokki lands­ins. Nið­ur­staðan var samt sem áður von­brigði. Flokk­ur­inn hafði tapað umtals­verðu fylgi, sem hefði getað breytt hinni póli­tísku stöðu umtals­vert, á síð­ustu dögum kosn­inga­bar­átt­unn­ar. Á end­anum bættu Vinstri græn ein­ungis við sig einum þing­mann­i. 

Í bók­inni er reynt að leita skýr­inga á því hvað fór úrskeið­is. Ein skýr­ingin sem þar er viðruð er að Flokki fólks­ins, sem hafi höfðað til hinna minna meg­andi, hafi náð umtals­verðum árangri á loka­metr­unum sem skil­aði flokknum í fyrsta sinn inn á þing. Fylgi flokks­ins hefði, sam­kvæmt könn­un­um, lækkað hjá þeim sem höfðu ein­ungis grunn­skóla­próf en var hærra en hjá nokkrum öðrum flokki hjá þeim sem voru háskóla­mennt­að­ir. 

Verst geymda leynd­ar­málið í póli­tík­inni

Næsta skref voru stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræður Vinstri grænna, Sam­fylk­ing­ar, Pírata og Fram­sókn­ar­flokks heima hjá Sig­urði Inga Jóhanns­syni í Hruna­manna­hreppi. Þeim var slitið eftir fjóra daga. 

Í kjöl­farið fóru af stað þreif­ingar milli Vinstri grænna, Fram­sóknar og Sjálf­stæð­is­flokks, enda segir í bók­inni að áhugi innan allra þeirra flokka á slíku sam­starfi hafi verið „verst geymda leynd­ar­málið í póli­tík­inni“ á þeim tíma. 

Skiptar skoð­anir voru um þetta innan Vinstri grænna og Svan­dís Svav­ars­dóttir segir meðal ann­ars í bók­inni að henni hafi þótt „mik­il­vægt af sögu­legum og póli­tískum ástæðum að VG og Sam­fylk­ingin fylgd­ust að“. Síð­ar­nefndi flokk­ur­inn hafði hins vegar úti­lokað stjórn­ar­sam­starf með Sjálf­stæð­is­flokkn­um.

Í bók­inni segir að snemma í við­ræð­unum hafi náðst sam­komu­lag um að Katrín yrði for­sæt­is­ráð­herra og að Vinstri græn myndu þar með leiða stjórn­ina. Svan­dís segir þar að efa­semdir hennar um stjórn­ar­sam­starfið hafi fljót­lega farið að eyð­ast. „Mér fannst þetta vissu­lega djörf ákvörðun en að sama skapi ótrú­lega spenn­andi. Um leið og við vorum svo komin yfir þann hjalla að vega og meta hvort skyldi leggja út í þetta þá vann ég að því heils hug­ar. Mér finnst bak­þankar leið­in­leg­ir.“

Þegar afrakstur við­ræðna var kynntur þing­flokknum 13. nóv­em­ber 2017 var Kol­beinn Ótt­ars­son Proppé einna fyrstur úr þing­lið­inu til að lýsa stuðn­ingi við það að hefja form­legar stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­ur. Stein­grímur J. Sig­fús­son segir í bók­inni að það ætti ekki að ein­blína á að flokk­arnir tveir sem verið var að fara að mynda rík­is­stjórn með bæru ábyrgð á hrun­inu. Það hafi ekki verið flokk­arnir „sem stofn­anir sem ollu hrun­inu heldur sú stefna sem ákveðnir ein­stak­lingar reyndu að fram­fylgja“. Ekki væri hægt að fest­ast í sögu­legri hefnd­ar­hyggju.

Kolbeinn Óttarsson Proppé var einna fyrstur úr þingliðinu til að lýsa yfir stuðningi við viðræður um myndum stjórnarinnar sem nú situr.
Mynd: Bára Huld Beck

Í stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­unum reynd­ist erf­ið­ast að ná saman um skatta-, umhverf­is- og jafn­rétt­is­mál. 

Rík­is­stjórnin tók form­lega við völdum í lok nóv­em­ber 2017. Í bók­inni seg­ir: „„Eyði­merk­ur­ganga“ VG hin síð­ari var á enda.“

Van­traust­s­til­lagan erf­ið­ust fyrir þing­flokk­ur­inn 

Í raun fækk­aði strax um tvo í stjórn­ar­meiri­hlut­an­um, sem taldi 35 þing­menn eftir kosn­ing­arn­ar, þar sem Andrés Ingi Jóns­son og Rósa Björk Brynj­ólfs­dóttir studdu ekki myndun stjórn­ar­innar né stjórn­ar­sátt­mál­ann. Þegar kom að skipun þing­nefnda voru þau ekki reiknuð með hjá stjórn­ar­flokk­unum heldur þing­menn Vinstri grænna taldir níu í stað ell­efu. Andrés Ingi, sem nýverið yfir­gaf þing­flokk Vinstri grænna og situr nú sem óháður þing­mað­ur, segir í bók­inni að þau tvö hafi „strax í upp­hafi verið sett á annan bás en restin af þing­flokkn­um.“ Rósa Björk segir að hún hafi strax skynjað að sjálf­stæð­is­menn hefðu lagst gegn því að hún og Andrés Ingi myndu fá áhrifa­stöður í þing­nefndum sem skerti á móti styrk Vinstri grænna í þeim. Flokk­ur­inn hefði átt að fá for­mennsku í einni nefnd í við­bót. 

Skömmu eftir að rík­is­stjórnin tók við kom dómur Hæsta­réttar í Lands­rétt­ar­mál­inu, þar sem lög­brot Sig­ríðar And­er­sen voru stað­fest. Í kjöl­farið lagði stjórn­ar­and­staðan fram van­traust­s­til­lögu á Sig­ríði sem var felld með 33 atkvæðum gegn 29. Andrés Ingi og Rósa Björk studdu hana, og upp­lifðu sig jað­ar­sett í kjöl­far­ið. 

Í bók­inni segir Katrín að eitt flókn­asta verk­efnið í póli­tík sé að búa til og halda utan um liðs­heild. „Hver þing­maður er t.d. ekki ein­göngu hluti af gang­verki þing­flokks, hann er líka sjálf­stæð stofnun í sam­keppni við aðra þing­menn. Eitt lærðum við a.m.k. af stjórn­ar­tíð­inni 2009-2013, þar er ekki hægt að þvinga ein­stak­ling til að breyta gegn betri vit­und. Van­traust­s­til­lagan reyndi vissu­lega mjög á, hún var fyr­ir­sjá­an­leg en samt það erf­ið­asta sem þing­flokk­ur­inn hafði til þessa tek­ist á við. Og þá datt fylgi VG niður i skoð­ana­könn­un­um.“

Til­efni til að vera hugsi

Við­horfskönnun sem Vinstri græn gerðu í fyrra­haust, til að taka saman upp­lýs­ingar um stöðu flokks­ins, gáfu félags­mönnum til­efni til að vera hugsi yfir stöðu mála. 

Í könn­un­inni var leitað álits 2.437 ein­stak­linga úr félaga­skrá Vinstri grænna og 2.979 úr handa­hófs­kenndu úrtaki. Í bók­inni seg­ir: „Nið­ur­staða könn­un­ar­innar var kynnt á flokks­ráðs­fundi VG 12. októ­ber [2018]. Sam­kvæmt henni voru 44 pró­sent flokks­manna sem tóku þátt í könn­un­inni „frekar ánægð­ir“, „mjög ánægð­ir“ eða „að öllu leyti ánægð­ir“ með störf rík­is­stjórnar Katrínar Jak­obs­dótt­ur.[...]Þá sögðu 47 pró­sent kjós­enda VG 2017 að þátt­taka hreyf­ing­ar­innar í rík­is­stjórn hefði ekki haft nei­kvæð áhrif á val sitt í borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­unum og voru nei­kvæðu áhrifin enn minni utan Reykja­vík­ur. Þessi nið­ur­staða var mjög í takti við nið­ur­stöðu sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­anna þar sem árangur VG var rýr á höf­uð­borg­ar­svæð­in­u.“

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar