Ekki hefur verið hugað að nýrri ráðherraskipan innan þingflokks Vinstri grænna en í nýrri bók sem fjallar um sögu flokksins kemur fram að við myndun sitjandi ríkisstjórnar hafi Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður flokksins, lagt fram þann fyrirvara að ráðherravalið yrði endurskoðað á miðju kjörtímabili.
Saga Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er komin út á tuttugu ára afmæli flokksins en Pétur Hrafn Árnason sagnfræðingur ritar. Í bókinni er meðal annars rakinn aðdragandi stjórnarmyndunar í lok árs 2017 en ríkisstjórnin tók formlega við völdum á ríkisráðsfundi þann 30. nóvember. Í hlut Vinstri grænna komu heilbrigðisráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti auk forsætisráðuneyti. Þá varð Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis.
Í bókinni kemur fram að um tíma hafi litið út fyrir það að Vinstri græn fengju menntamálaráðuneytið og hafði Svandís Svavarsdóttir lýst yfir áhuga á að gegna því ráðherraembætti en þegar mál hafi skipast á annan veg tók hún að sér heilbrigðismálin. Katrín hafði jafnframt samband við Guðmund Inga Guðbrandsson, þáverandi framkvæmdastjóra Landverndar, og spurt hvort hann vildi taka það að sér að verða umhverfisráðherra, sem hann og samþykkti.
Þá segir enn fremur í bókinni að þingflokkurinn hafi samþykkt samhljóða tillögu Katrínar Jakobsdóttur, formanns flokksins, um ráðherraefni. Þó hafi Lilja Rafney lagt fram fyrirvara, eins og áður segir, um að ráðherravalið yrði endurskoðað að tveimur árum liðnum.
Nú eru rúm tvö ár liðin síðan núverandi ríkisstjórn hóf störf en í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að ráðherraskipan Vinstri grænna hafi ekki verið endurskoðuð það sem af er kjörtímabili eða tekin til sérstakrar umræðu. Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur engin ákvörðun verið tekin um hvort ráðherraval verði endurskoðað á náinni framtíð.
Lilja Rafney gerir ekki kröfu um endurskoðun
Lilja Rafney segir í samtali við Kjarnann að þetta hafi verið eitt af þessum atriðum sem nefnt var á þessum tíma. „Ég hef ekki gengið á eftir því og hefur þetta ekki komið til tals síðan þá,“ segir hún og bætir því við að hún hafi ekki mikið hugsað um þennan fyrirvara sem hún setti eða mikið verið að dvelja við það sem sagt var. Hún sé enn fremur ekki með kröfu um að ráðherravalið verði endurskoðað.
Að sögn Lilju Rafneyjar var ástæðan fyrir því að hún setti fyrrnefndan fyrirvara sú að henni fannst eðlilegt að gera slíka kröfu í ljósi þingreynslu sinnar en hún hefur verið alþingismaður Norðvesturkjördæmis síðan árið 2009 fyrir Vinstri græn. Hún var jafnframt varaþingmaður í mars og apríl árið 1993 fyrir Alþýðubandalagið, í nóvember árið 1998 utan flokka og í janúar og febrúar 2007 fyrir Vinstri græn.