Markaðsvirði Sýnar hækkaði um 8,34 prósent í dag, og nemur það nú um 10,1 milljarði króna. Þá hækkaði markaðsvirði Símans um 3,7 prósent, og nemur það nú um 47 milljörðum króna.
Þessar hækkanir komu í viðskiptum upp á samtals um 900 milljónir, þar af tæplega 700 milljónir í viðskiptum með bréf Símaans, og rúmlega 200 milljónir með bréf Sýnar.
Í gær var tilkynnt um að Sýn, Síminn og Nova hefðu skrifað undir viljayfirlýsingu, þar sem kannað er með samvinnu félaganna þriggja þegar kemur að uppbyggingu innviða á sviði fjarskipta.
Stærsti eigandi Sýnar er Gildi lífeyrissjóður, með tæplega 14 prósent hlut. Stærsti eigandi Símans er félagið Stoðir, með rúmlega 14 prósent hlut. Lífeyrissjóður verslunarmanna er næst stærsti hluthafinn í báðum félagum, með tæplega 11 prósent í Sýn og tæplega 12 prósent í Símanum.