Sósíalistaflokkur Íslands mælist nú í fyrsta sinn með yfir fimm prósent fylgi í könnunum MMR. Fylgi hans stekkur úr 3,0 prósentustigum í 5,2 prósent milli mánaða. Sá flokkur sem finnur mest fyrir þessari aukningu Sósíalistaflokksins er Flokkur fólksins, sem skreppur saman úr 6,3 prósentum í 4,0 prósent milli mánaða.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 20 prósent fylgi í nýjustu könnun MMR og er sem fyrr stærsti flokkur landsins. Fylgi hans eykst úr 18,1 prósent í síðasta mánuði, sem var lægsta fylgi sem hann hafði mælst með í könnunum MMR frá upphafi mælinga.
Samfylkingin bætir lítillega við sig á milli mánaða og endurheimtir annað sætið á fylgislista stjórnmálaflokka með 14,4 prósent fylgi.
Píratar bæta líka við sig fylgi og mælast nú með 11,8 prósent stuðning, aðeins meira en Viðreisn sem mælist með 10,5 prósent. Vinstri græn eru á svipuðum stað og þau voru í nóvember með 10,3 prósent fylgi en Framsóknarflokkurinn dalar og myndi fá 8,3 prósent ef kosið yrði í dag.
Könnun MMR var framkvæmd daganna 13. til 19. desember og svarfjöldi var 1.014 einstaklingar 18 ára og eldri.
Stuðningur við ríkisstjórnina dalar og mælist nú 39 prósent. Það er einungis í annað sinn frá því að hún settist að völdum fyrir rúmum tveimur árum síðan sem að stuðningur við hana mælist minni en 40 prósent.