Gunnar Jakobsson, lögfræðingur og MBA frá Yale, hefur verið skipaður varaseðlabankastjóri á sviði fjármálastöðugleika, en það var Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sem skipaði hann eftir umsóknarferli og tilnefningu fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarna Benediktssonar.
Eins og Kjarninn greindi frá þá mat hæfisnefnd, fimm einstaklinga mjög vel hæfa til að gegna starfinu, en auk Gunnars voru það Guðrún Johnsen, hagfræðingur, Jón Þór Sturluson, hagfræðingur, Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur.
Greinargerð hæfisnefndarinnar, um umsækjendur, hefur nú verið birt, og einnig rökstuðningur sem Bjarni Benediktsson lét fylgja tilnefningu sinni.
„Er það niðurstaða forsætisráðherra á grundvelli heildarmats á umsóknargögnum, greinargerð hæfnisnefndar og rökstuðningi fjármála- og efnahagsráðherra fyrir tilnefningu sinni, og annarra gagna málsins, að tilnefning fjármála- og efnahagsráðherra byggist á traustum málefnalegum grunni og að Gunnar Jakobsson sé í reynd, á grundvelli þeirra matsþátta sem lagðir eru til grundvallar í nýjum lögum um Seðlabanka Íslands og í auglýsingu um embættið, hæfastur umsækjenda til að hljóta skipun í embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika,“ segir í tilkynningu frá Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra.
Gunnar Jakobsson lauk cand.jur. prófi frá Háskóla Íslands árið 1995 og MBA námi frá Yale háskóla árið 2001. Þá hlaut hann CFA-réttindi frá CFA-stofnuninni í Charlottesville í Virginíu árið 2006. Gunnar starfaði sem lögfræðingur í uppboðsdeild hjá sýslumanninum í Reykjavík árið 1995 en seinna sama ár hóf hann störf sem héraðsdómslögmaður hjá Lögmannsstofunni Síðumúla 9. Á árunum 1997 til 1999 starfaði hann sem lögfræðingur á nefndasviði Alþingis, m.a. sem ritari efnahags- og viðskiptanefndar. Gunnar hóf störf hjá fjárfestingabankanum Goldman Sachs & Co. sumarið 2000 og starfar þar enn í dag, fyrst í New York en frá árinu 2018 í London. Fyrsta árið var Gunnar fulltrúi á rekstrarsviði bankans.
Á árunum 2001 til 2004 var Gunnar fulltrúi og síðar yfirmaður á rekstrarsviði bankans. Á árunum 2006 til 2008 var hann yfirmaður á rekstraráhættusviði bankans, á árunum 2006 til 2008 yfirmaður og rekstrarstjóri áhættusviðs eignastýringar, rekstrar- og starfsmannastjóri markaðsáhættusviðs á árunum 2008 til 2012, framkvæmdastjóri rekstrardeildar markaðsáhættusviðs á árunum 2012 til 2015 og framkvæmdastjóri lausafjársviðs áhættustýringar á árunum 2015 til 2018. Frá árinu 2018 hefur Gunnar gegnt stöðu framkvæmdastjóra lausafjársviðs og persónuverndar fyrir Goldman Sachs International í London. Gunnar var stundakennari í almennri lögfræði á árunum 1995 til 1998 við lagadeild Háskóla Íslands. Þá sat hann í stjórn The Risk Management Association árin 2017 til 2019, að því er segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.