Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja, segir í bréfi til starfsmanna fyrirtækisins sem birt er á heimasíðu þess í dag, að hann geti upplýst um að rannsókn norskrar lögmannsstofu, sem Samherji réð til að rannsaka fyrirtækið, miði ágætlega. Vonast sé til að niðurstöður hennar liggi fyrir snemma á komandi ári. Markmið Samherja sé að standa af sér storminn og komast í gegnum hann.
Í bréfinu segist hann vita að sumir starfsmenn hafi viljað að Samherji myndi svara ásökunum á hendur fyrirtækinu af meiri krafti. „Ekki velkjast í vafa um að við munum leiðrétta allar rangfærslur um félagið. Við erum bara rétt að byrja.“
Björgólfur segir að Samherjamálið svokallaða, sem snýst um meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu fyrirtækisins, hafi ekki haft teljandi áhrif á rekstur Samherjasamstæðunnar. Það sé vöxtur í sölu og veiða og vinnsla gangi vel. „Þá hafa samstarfsaðilar okkar hér heima og erlendis staðið með félaginu. Það er baráttuhugur í stjórnendum Samherja á öllum vígstöðum og við erum sannfærð um að framtíð fyrirtækisins sé björt.“
Efast um mútugreiðslur
Fyrir rúmri viku síðan sagði Björgólfur, sem þá var í viðtali við norska viðskiptablaðið Dagens Næringsliv, að hann efist um „að nokkrar mútugreiðslur hafi átt sér stað eða að fyrirtækið sé eða hafi verið flækt í nokkuð ólögmætt.“
Þar sagði hann enn fremur að hann telji að Jóhannes Stefánsson, sem starfaði hjá Samherja í Namibíu fram á mitt ár 2016 og uppljóstraði um viðskiptahætti fyrirtækisins þar, hafi verið einn að verki þegar kom að greiðslum sem stæðust ekki skoðun.
Hann sagði Samherja ætla að draga fram það sem hefði átt sér stað í Namibíu, með rannsóknum sem fyrirtækið er að greiða norskri lögmannsstofu fyrir að framkvæma á sér, og leyfa svo þar til bærum yfirvöldum að meta afraksturinn. Björgólfur reiknar með því að hann muni ljúka hlutverki sínu sem tímabundinn forstjóri Samherja á fyrsta ársfjórðungi ársins 2020. Það þýðir væntanlega að til standi að Þorsteinn Már Baldvinsson, sem steig tímabundið til hliðar sem forstjóri eftir að viðskiptahættir Samherja í Namibíu voru opinberaðir í síðasta mánuði, eigi að snúa aftur í stólinn á þeim tíma.
Ætlaðar mútugreiðslur 1,4 milljarðar
Málsvörn Samherja í málinu hingað til hefur fyrst og fremst byggst á þeirri línu sem Björgólfur fetar í viðtalinu. Að Jóhannes Stefánsson hafi einn framkvæmd ólögmæta viðskiptagjörninga í Namibíu, að fyrirtækið hafi ekki orðið uppvíst að peningaþvætti og að það hafi ekki stundað skipulega skattasniðgöngu með því að láta afrakstur veiða sinna safnast saman í lágskattaríkjum og komast þannig hjá því að greiða skatta í þeim ríkjum þar sem arðurinn varð til.
Jóhannes hefur gengist við því að hafa greitt mútur fyrir hönd Samherja til að tryggja fyrirtækinu aðgengi að kvóta í Namibíu. Hann segir hins vegar allar greiðslur hafa farið fram með vitund og vilja Þorsteins Más Baldvinssonar, fyrrverandi forstjóra Samherja og eins aðaleiganda fyrirtækisins, og Aðalsteins Helgasonar, sem var yfir starfseminni í Namibíu.
Í umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Wikileaks og Al Jazeera kom fram að mútugreiðslur til ráðamanna í Namibíu hafi staðið yfir fram á árið 2019, en Jóhannes Stefánsson lét af störfum hjá Samherja í júlí 2016. Þar sagði að þær hefðu numið 1,4 milljarði króna hið minnsta.
Þegar er búið að handtaka og ákæra Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og fjóra aðra menn fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, í greiðslur fyrir að tryggja félögum tengdum Samherja eftirsóttan kvóta í landinu.
Auk Shanghala og Esau voru James Hatuikulipi, sem hætti sem stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor nýverið, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius Mwatelulo, sem einnig tengist Hatuikulipi fjölskylduböndum, ákærðir.
Jóhannes ræddi viðbrögð Samherja við málinu í Kastljósi fyrr í þessum mánuði og sagði að fyrirtækinu væri „velkomið að reyna að villa um fyrir fólki“. Hann væri bara ábyrgur fyrir 20-30 prósemt af þeim mútugreiðslum sem greiddar hefðu verið til ráðamanna í Namibíu fyrir aðgang að kvóta áður en að hann hætti störfum hjá fyrirtækinu.
Samherjamálið er til rannsóknar á Íslandi, í Noregi, í Namibíu og Angóla. Í síðustu viku var greint frá því að fulltrúar héraðssaksóknara hefðu átt fund með fulltrúum Økokrim, efnahags- og umhverfisglæpadeild norsku lögreglunnar, og ýmsum stofnunum í Namibíu, í Haag í Hollandi í vikunni á undan vegna Samherjamálsins.