Samkvæmt niðurstöðum vetrarkönnunar Gallup sem framkvæmd var í desember meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins voru viðhorf fyrirtækja til núverandi efnahagsaðstæðna betri en bæði í haustkönnuninni og vetrarkönnuninni fyrir ári.
Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, frá fundi hennar fyrr í mánuðinum, 9. og 10. desember, en hún var birt í dag.
Nefndin ákvað að fara eftir tillögu Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra, um að halda vöxtum óbreyttum í 3 prósentum, en þegar ákvörðunin var tekið mældist verðbólga 2,7 prósent. Hún lækkaði hins vegar í 2 prósent, við síðustu mælingu hennar. Verðbólgumarkmiðið er 2,5 prósent.
Samkvæmt fyrrnefndri könnun Gallup eru stjórnendur fyrirtækja nú jákvæðri en þeir voru á sama tíma í fyrra.
„Stjórnendur eru þó töluvert jákvæðari um horfurnar á næstu sex mánuðum en bæði sl. haust og veturinn 2018. Tæp 55% stjórnenda töldu núverandi aðstæður hvorki góðar né slæmar og um 31% taldi þær góðar. Horft til næstu sex mánaða töldu tæp 28% að aðstæður í efnahagslífinu batni og um 46% að þær verði hvorki betri né verri. Rúmlega fimmtungur fyrirtækja taldi að aðstæður verði verri eftir sex mánuði eða nokkru færri en í haust. Stjórnendur eru þó lítils háttar svartsýnni um þróun innlendrar eftirspurnar en í haustkönnuninni, einkum stjórnendur í byggingastarfsemi og samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu. Væntingar um erlenda eftirspurn bötnuðu lítillega frá því í haust, einkum meðal stjórnenda í fjármálaþjónustu og verslun,“ segir í fundargerðinni.
Í peningastefnunefndinni, sem sat desember fund nefndarinnar, voru auk seðlabankastjóra, Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri, Gylfi Zoega prófessor, Katrín Ólafsdóttir lektor, og Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur. Þórarinn gengur nú úr nefndinni, þar sem nýr varaseðlabankastjóri á sviði fjármálastöðugleika, Gunnar Jakobsson, mun taka sæti í nefndinni, lögum samkvæmt.