Helgi Magnús Gunnarsson, sem verið hefur verið vararíkisaksóknari frá árinu 2011 og var þar áður yfir efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra frá árinu 2007, segir að Haraldur Johannessen, sem nýverið samdi um að hætta sem ríkislögreglustjóri, hefði lagt sig fram við að gera starfsfólk embættisins óánægt í starfi með framkomu sinni árum saman. Hann hefði getað sagt fyrir um það sem nú væri að gerast fyrir tíu árum síðan.
Þetta er meðal þess sem fram kom í ítarlegu viðtali Kjarnans við Helga Magnús sem birt var á annan í jólum. Haraldur samdi nýverið um starfslok sín við dómsmálaráðherra og er kostnaður vegna þeirra starfsloka áætlaður 47,2 milljónir króna án launatengdra gjalda. Þegar þeim er bætt við er kostnaðurinn 56,7 milljónir króna. Í september síðastliðnum lýstu átta af níu lögreglustjórum landsins og formannafundur Landssambands lögreglumanna yfir vantrausti á Harald. Þeir báru viðtal sem hann fór við í Morgunblaðinu fyrr í þeim mánuði fyrir sig sem lykilástæðu þeirrar ákvörðunar.
Í viðtalinu sagði Haraldur meðal annars að verið væri að reyna að hrekja hann úr embætti með því að dreifa vísvitandi rangfærslum og rógburði um hann. Þeir sem væru að gera það væru lögreglumenn sem teldu sig eiga harma að hefna gegn honum, meðal annars vegna þess að hann hafi gripið inn í vegna starfshátta eða framkomu þeirra eða vegna þess að þeir hafi ekki fengið stöður sem þeir sóttust eftir. Ef til starfsloka hans kæmi myndi það kalla á enn ítarlegri umfjöllun af hans hálfu um valdabaráttuna bak við tjöldin.
Telur Harald hafa vikið sér undan rannsóknum
Þar segist Helgi Magnús hafa verið mjög ósáttur við þá aðferðarfræði sem beitt var á sínum tíma þegar embætti sérstaks saksóknara var sett á fót. „Þetta var gert svona, að stofna nýtt embætti, vegna þess að Haraldur Johannessen, þáverandi ríkislögreglustjóri, sem var þá í ágætis sambandi við dómsmálaráðherrann á þeim tíma[Björn Bjarnason], vildi ekki sitja uppi með þennan pakka úr bankahruninu. Hann var búinn að brenna sig á Baugsmálinu, sem honum fannst í lagi þegar allt virtist ganga vel og líta vel út fyrir embætti hans en strax og það fór að verða erfitt þá snéri hann baki við því og þeim sem komu nálægt málinu. Kannski var það að einhverju leyti skynsamlegt hjá Haraldi, að víkja sér undan rannsókn hrunmála, vegna þess að hann hefur gert sér grein fyrir að það myndi ekki peningur fylgja með verkefninu. Að embættið myndi sitja uppi með bankahrunsmál í efnahagsbrotadeild án nokkurra peninga.“
Hann spyr sig hins vegar hvers konar kerfi það sé sem þurfi slíkan þrýsting til að magna upp reiði svo að það sé gripið til aðgerða. „Það er áhyggjuefni ef að ákæruvaldið og lögregla eigi að virka eins og einhverjar stormsveitir þegar næg reiði blossar upp. Þetta er eins og að vera með heilbrigðiskerfi sem myndi ekki fá neinn pening nema þegar nógu margir yrðu nógu reiðir yfir því hversu margir væru að deyja á biðlistum.“
Fagleg della
Faglega telur hann að það hafi verið della að setja á fót embætti sérstaks saksóknara, í stað þess að byggja nýja og sterkari stofnun efnahagsbrota í kringum þá efnahagsbrotadeild sem var þegar til staðar. En til þess þurfti að flytja hana frá ríkislögreglustjóranum og gera hana sjálfstæða ákæruvaldsstofnun. „Við vorum með einhverjar 12-13 manneskjur sem voru nothæfar til að rannsaka efnahagsbrot og þær voru í efnahagsbrotadeildinni, en samt átti að fara að stofna nýtt embætti, safna þar saman fólki og búa til nýjan stofnanakúltúr til hliðar við þann sem við vorum búin að vera að þróa í efnahagsbrotadeildinni í einhver tíu ár, líta til fyrirmynda og sækja okkur menntun til Noregs til að hafa grunn í þetta.
Deildirnar tvær hafi meira að segja farið í húsleitir á sömu lögmannsstofunni, annar fyrir hádegi og hinn eftir hádegi í sitthvoru málinu. „Einu sinni gerðist það. Við mættumst bara í dyrunum. Þá er það svo að mörg stór mál í efnahagsbrotadeild drógust á langinn vegna manneklu og spekileka til sérstaks saksóknara. Þessi mál voru mörg sambærileg í umfangi og þau mál sem sérstakur var að fást við ef frá eru talin þau fáu allra stærstu. Dragist sakamál á langinn er með því brotið gegn rétti sakbornings og refsingar taka mið af þeim drætti til góða fyrir sakborning.“