Fjölmiðlanefnd gerir athugasemdir í fjórum liðum

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að RÚV hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt á rekstrarárinu 2017.

RÚV
Auglýsing

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpið ohf. hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt á rekstrarárinu 2017. Um leið gerir fjölmiðlanefnd athugasemdir í fjórum liðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjölmiðlanefnd en nefndin birti mat sitt fyrir árið 2017 nú rétt fyrir jól.

Í fyrsta lagi gerir fjölmiðlanefnd athugasemd við það að lögbundinn tími til kosningaumfjöllunar sé of skammur. „Samkvæmt mati fjölmiðlanefndar gera reglur um framboðsfresti fyrir kosningar í íslenskri löggjöf Ríkisútvarpinu erfitt fyrir þar sem frestir renna út afar skömmu fyrir kosningar eða fimmtán dögum fyrir alþingiskosningar, þremur vikum fyrir sveitarstjórnarkosningar og fimm vikum fyrir forsetakosningar,“ segir í matinu.

Auglýsing

Umfjöllun RÚV um framboð og frambjóðendur þarf að hefjast mun fyrr

Þá kemur fram að umfjöllun Ríkisútvarpsins um framboð og frambjóðendur þurfi að hefjast mun fyrr til að unnt sé að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í lögum um Ríkisútvarpið og samningi mennta- og menningarmálaráðherra og Ríkisútvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Þetta þýðir að umfjöllun Ríkisútvarpsins þurfi að hefjast áður en fyrir liggur hvaða flokkar og einstaklingar ná að safna tilskildum fjölda undirskrifta til að framboð þeirra teljist gild. 

„Eins og fjölmiðlanefnd hefur áður bent á er brýnt að samræma reglur um framboðsfresti fyrir kosningar og þær kröfur sem gerðar eru til kosningaumfjöllunar Ríkisútvarpsins í lögum um Ríkisútvarpið og þjónustusamningi mennta- og menningarmálaráðherra og Ríkisútvarpsins. Slíkt fyrirkomulag væri hvoru tveggja í samræmi við fordæmi í nágrannalöndum Íslands og í samræmi við réttmætar væntingar almennings og frambjóðenda til þess að leikreglur séu skýrar,“ segir í matinu. 

Bregðast þarf við óvissu um framtíðarhorfur rekstrar RÚV

Í öðru lagi telur fjölmiðlanefnd að bregðast þurfi við óvissu um framtíðarhorfur rekstrar RÚV. „Í ársreikningi Ríkisútvarpsins kemur fram að fyrir liggi að þrátt fyrir nýlega sölu eigna muni Ríkisútvarpið, þegar fram líða stundir, ekki geta staðið undir greiðslum afborgana af láni frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins m.v. vaxtakjör og greiðsluskilmála lánsins, væntar tekjur félagsins og kröfu um óbreytta starfsemi. Viðræður standi yfir við lífeyrissjóðinn um skilmálabreytingu lánsins.“

Þá segir í ársskýrslu Ríkisútvarpsins að þrátt fyrir jákvæðan viðsnúning í rekstri að undanförnu, þurfi að gæta aðhalds til að tryggja áframhaldandi hallalausan rekstur þar sem opinberar tekjur félagsins hafi ekki hækkað í samræmi við launabreytingar samkvæmt kjarasamningum. Auk þess hafi möguleikar félagsins á öflun auglýsingatekna verið takmarkaðir umtalsvert með lagasetningum. Þá ríki enn óvissa um framtíðarhorfur vegna mikillar skuldsetningar og skuldir séu þungur baggi á starfseminni. Nýr þjónustusamningur til ársins 2020 tryggi stöðugleika í fjárveitingum og gerir félaginu kleift að gera eðlilegar langtímaáætlanir.

Fjölmiðlanefnd telur mikilvægt að brugðist verði við þeirri óvissu sem ríkir um framtíðarhorfur reksturs Ríkisútvarpsins hið fyrsta, meðal annars vegna skuldbindinga félagsins við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þá tekur fjölmiðlanefnd undir sjónarmið Ríkisútvarpsins um að trygg og fyrirsjáanleg opinber fjármögnun sé grunnforsenda þess að almannafjölmiðill geti rækt lýðræðis-, menningar- og samfélagshlutverk sitt í samræmi við ákvæði laga um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.

RÚV ber að stofna dótturfélag fyrir aðra starfsemi en fjölmiðlun

Í þriðja lagi gerir fjölmiðlanefnd athugasemd er varðar stofnun dótturfélaga um samkeppnisrekstur RÚV. „Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um rekstur og aðgreiningu rekstrarþátta Ríkisútvarpsins, sem út kom í nóvember 2018, benti ríkisendurskoðandi m.a. á að Ríkisútvarpinu beri að uppfylla lagalegar skyldur um stofnun dótturfélags fyrir aðra starfsemi en fjölmiðlun í almannaþágu.“

Gildistöku laganna hefur í tvígang verið frestað af löggjafanum og tók ákvæðið fyrst gildi þann 1. janúar 2018. Lagaleg skylda Ríkisútvarpsins til að stofna dótturfélög um samkeppnisrekstur var því ekki fyrir hendi árið 2017, á því reikningsári sem er til umfjöllunar í matinu.

Ekki skýrt hvort meðframleiðsla teljist hluti af rekstri RÚV eða til samkeppnisreksturs

Í fjórða og síðasta lagi gerir fjölmiðlanefnd athugasemd við breytingar Ríkisútvarpsins á samningum við sjálfstæða kvikmyndaframleiðendur. „Breytingar Ríkisútvarpsins á samningum við sjálfstæða framleiðendur voru samþykktar af stjórn Ríkisútvarpsins í nóvember 2017 og hafa verið gagnrýndar af kvikmyndaframleiðendum og Samtökum iðnaðarins, m.a. fyrir það að fela í sér lækkun sýningarréttargjalds og að hlutfallsleg eignamyndun Ríkisútvarpsins, í þeim verkefnum sem það fjármagnar, sé of mikil miðað við framlag stofnunarinnar og þá fjárhagslega áhættu sem hún tekur. Þá sé ekki skýrt hvort slík meðframleiðsla teljist hluti af rekstri Ríkisútvarpsins vegna fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu eða til samkeppnisreksturs.“

Samtök iðnaðarins sendu mennta- og menningarmálaráðuneytinu erindi í ágúst 2018, með afriti á fjölmiðlanefnd, þar sem þau bentu meðal annars á framangreint, samkvæmt nefndinni. 

Framangreindar breytingar á samningum við sjálfstæða framleiðendur hafi verið gerðar seint á árinu 2017 og borist fjölmiðlanefnd afrit af erindi Samtaka iðnaðarins í ágúst 2018. Þær koma því ekki til skoðunar í mati fjölmiðlanefndar fyrir reikningsárið 2017.

Fjórða sinn sem fjölmiðlanefnd skilar mati sínu

Fjölmiðlanefnd leggur árlega sjálfstætt mat á það hvort Ríkisútvarpið hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið. Þetta er í fjórða sinn sem fjölmiðlanefnd skilar slíku mati til mennta- og menningarmálaráðherra og í annað sinn sem matið byggist á fyrirliggjandi samningi mennta- og menningarmálaráðherra og Ríkisútvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. 

Ríkisútvarpinu er lögum samkvæmt ætlað að sinna mikilvægu lýðræðislegu, menningarlegu og samfélagslegu hlutverki. Einn tilgangur með árlegu mati fjölmiðlanefndar er að veita innsýn í hlutverk fjölmiðla sem sinna almannaþjónustu, hvernig Ríkisútvarpið uppfyllir kröfur sem gerðar eru til slíkra miðla og hvort þjónusta Ríkisútvarpsins hefur þróast í takt við tæknibreytingar og þarfir samtímans.

Talið mikilvægt að óháður eftirlitsaðili meti RÚV

Annar tilgangur með matinu er að uppfylla kröfur Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, um ríkisstyrki til útvarpsþjónustu, samanber skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Í matinu kemur fram að heimilt sé að veita ríkisstyrki til útvarpsþjónustu í almannaþágu þegar uppfylltar séu lýðræðislegar, menningarlegar og samfélagslegar þarfir samfélagsins, auk menningarlegs og tungumálalegs fjölræðis. Þær upplýsingar sem fram koma í skýrslunni séu því nauðsynlegar til að unnt sé að veita Ríkisútvarpinu undanþágu frá almennum ríkisstyrkjareglum. Mikilvægt sé talið að óháður eftirlitsaðili leggi mat á það hvort Ríkisútvarpið veiti í raun þá fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu sem kveðið er á um í lögum.

Lauk öllum tímasettum aðgerðum árið 2017

Í mati fjölmiðlanefndar kemur enn fremur fram að Ríkisútvarpið hafi lokið öllum 24 tímasettum aðgerðum, samkvæmt samningi mennta- og menningarmálaráðherra og Ríkisútvarpsins um fjölmiðlun í almannaþágu 2016 til 2019, sem eru eftirfarandi:

 1. Siðareglur starfsmanna RÚV.
 2. Endurskoðaðar fréttareglur.
 3. Starfsreglur stjórnar.
 4. Reglur um hlutlægni og áreiðanleika.
 5. Reglur um meðferð athugasemda, ábendinga og kvartana.
 6. Reglur um fréttir og dagskrárefni.
 7. Uppfærsla öryggisstefnu.
 8. Reglur um viðskiptaboð.
 9. Dagskrárstefna RÚV 2017.
 10. Dagskrárstefna RÚV til 2021.
 11. Stefnumótun með aðkomu almennings.
 12. Ný stefna hefur tekið gildi og verið birt á vef.
 13. Kostnaðarmat vegna Gullkistu RÚV.
 14. Hátíðardagskrá vegna 1. des 2018.
 15. Regluleg mæling á notkun almennings.
 16. Regluleg mæling á viðhorfi almennings.
 17. Jafnréttisáætlun.
 18. RÚV-myndir formgerðar.
 19. Tvöföldun á framlagi til leikins efnis.
 20. Aukið íslenskt barnaefni.
 21. Vinnsla og afhending nákvæmrar rekstraráætlunar.
 22. Endurskoðuð málstefna.
 23. Fundir um framkvæmd samnings.
 24. Kaup af sjálfstæðum framleiðendum.

Að mati fjölmiðlanefndar er mikilvægt að umræður um hlutverk og þjónustu Ríkisútvarpsins taki mið af því markmiði fjölmiðlunar í almannaþjónustu að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Frá Keflavíkurflugvelli.
Segja Ísland geta orðið miðstöð flugs á norðurslóðum
Í skýrslu starfshóps um efnahagstækifæri á norðurslóðum er sagt mikilvægt að flugi frá Íslandi til Rússlands og Kína verði komið á, enda hafi kínverskir ferðamenn mikinn áhuga á ferðum til norðurslóða. Þá séu tækifæri fólgin í betri tengingu við Grænland.
Kjarninn 14. maí 2021
Anna Dóra Antonsdóttir
Útskýring – leikrit í einum þætti
Kjarninn 14. maí 2021
Byggingar ratsjárstöðvarinnar á Heiðarfjalli hafa að mestu leyti verið jafnaðar við jörðu. Þó er enn mikið magn spilliefna á svæðinu.
Ríkið ráðist í hreinsun spilliefna við ratsjárstöð Bandaríkjahers á Heiðarfjalli
Á Heiðarfjalli er að finna í jörðu úrgangs- og spilliefni frá þeim tíma sem eftirlitsstöð Bandaríkjahers var í rekstri á fjallinu. Landeigendur hafa um áratuga skeið reynt að leita réttar síns vegna mengunarinnar.
Kjarninn 14. maí 2021
DV hefur ráðið nýjan ritstjóra til starfa.
Björn Þorfinnsson ráðinn ritstjóri DV
Blaðamaðurinn Björn Þorfinnson hefur tekið við starfi ritstjóra DV. Tobba Marinós lét nýverið af störfum sem ritstjóri miðilsins, sem er hættur að koma út á pappír.
Kjarninn 14. maí 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
„Af nógu að taka áður en höggvið er í sama knérunn um að laun séu of há“
Forseti ASÍ leggur til nokkrar lausnir áður en ráðamenn og fyrirtækjaeigendur hér á landi fara að gagnrýna slagorð verkalýðshreyfingarinnar „það er nóg til“.
Kjarninn 14. maí 2021
Ráðherrarnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Bjarni Benediktsson eru stundum sagðir standa í stafni fyrir þær ólíku fylkingar sem rúmast innan Sjálfstæðisflokks og bítast þar um völd og áhrif.
Sjálfstæðismenn á höfuðborgarsvæðinu komnir í prófkjörsham
Tekist hefur verið á um grundvallaráherslur Sjálfstæðisflokksins á óvenjulega opinberum vettvangi að undanförnu. Fulltrúar ólíkra sjónarmiða innan flokksins keppast nú um að koma þeim að í aðdraganda prófkjöra á höfuðborgarsvæðinu.
Kjarninn 14. maí 2021
Innviðir á leiðinni út
Sýn og Nova hefur nýlega hafið sölu á fjarskiptainnviðum sínum auk þess sem Síminn hefur íhugað að gera slíkt hið sama. Aðskilnaður á innviðum og þjónustu þótti hins vegar ekki ráðlegur þegar einkavæða átti Landssímann fyrir 20 árum síðan.
Kjarninn 14. maí 2021
Auglýsingin sem birt var í Morgunblaðinu í gær var nafnlaus, en hafði yfirbragð þess að hún væri á vegum Lyfjastofnunar. Það var hún ekki.
Morgunblaðið biðst velvirðingar á birtingu auglýsingar þar sem efast er um bólusetningar
Konan sem keypti heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu þar sem varað var við aukaverkunum vegna bólusetningar gegn COVID-19 segist ekki skammast sín. Lyfjastofnun segir auglýsinguna villandi hræðsluáróður.
Kjarninn 14. maí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent