Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinanr, telur að hlutverk stjórnmálamanna sé meðal annars að sannfæra almenning um nauðsyn þess að draga úr neyslu og þá sérstaklega þar sem kolefnissporið er stórt, jafnvel þótt það kosti viss óþægindi. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu hans í dag.
Tilefni skrifa Guðmundar Andra eru kjarr- og gróðureldar sem nú standa yfir í Ástralíu. Ástandið er sagt mjög alvarlegt þar í landi en almannavarnir í fylkinu Viktoríu fyrirskipuðu um helgina tugum þúsunda íbúa og ferðamanna að yfirgefa ákveðin svæði.
Fram kom í fréttum RÚV í morgun að þúsundir hafi forðað sér frá hættusvæðum í fylkinu en yfirvöld þar í landi tilkynntu í morgun að sums staðar væri of seint að flýja eldana, fólk yrði að gera ráðstafanir til að komast af.
Hefur tröllatrú á blönduðu hagkerfi
„Ástralía brennur. Núna. Við færumst nær þeim tímamótum í sögu mannkyns að ekki verður aftur snúið á braut hlýnunar andrúmsloftsins með tilheyrandi veðuröfgum. Hægra megin segja menn að það yrði manngert hallæri á heimsvísu að flýta orkuskiptum og hætta olíuvinnslu og kolagreftri svo fljótt sem auðið er; vinstra megin segir fólk að ekkert muni breytast nema kapítalisma verði bylt og nýtt kerfi innleitt – sósíalismi á heimsvísu; með miðstýrðum áætlunarbúskap sem allur miðar að sama marki,“ skrifar Guðmundur Andri.
Hann segist sjálfur hafa tröllatrú á blönduðu hagkerfi. „Ég held að í markaðinum búi reginafl en því verði að stýra. Að sjálfsögðu þarf að snúa af braut rányrkju á Jörðinni, þar sem stundargróðinn ræður för án þess að hirða um afleiðingar til langframa. Það þarf þróttmikið samstarf vísinda og fyrirtækja við að þróa tæknilegar lausnir þar sem stjórnvöld hafa hönd í bagga – leiða saman – stýra för – en stjórna ekki stóru og smáu eða gera allan arð upptækan, eins og fylgir miðstýrðu hagkerfi,“ skrifar hann.