Icelandair hefur gengið frá öðrum lánasamningi við bandaríska bankann CIT Bank að fjárhæð 3,7 milljarðar króna eða 30 milljónir Bandaríkjadala til fimm ára. Þetta er til viðbótar við þá 4,3 milljarða króna lánasamning sem félagið gerði við CIT Bank í byrjun desember.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Um er að ræða endurfjármögnun í kjölfar uppgreiðslu skuldabréfaflokka félagsins fyrr á þessu ári. Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Icelandair segir þessi fjármögnun styrkja góða lausafjárstöðu félagsins enn frekar.
„Þetta er annað lánið í mánuðinum sem við tökum hjá CIT en alls hefur bankinn lánað okkur um 8 milljarða króna eða 65 milljónir Bandaríkjadala. Það er ánægjulegt að svo reyndur fjármögnunaraðili deili trú okkar á framtíðarhorfur félagsins,” segir Eva Sóley í tilkynningu frá félaginu.
Auglýsing