Hlutabréf héldu áfram að hækka á alþjóðamörkuðum í dag, en á undanförnum sex mánuðum hefur S&P 500 vísitalan hækkað um meira en 30 prósent.
Árið 2019 var eitt besta árið á hlutabréfamörkuðum í áratug, eða frá því að fjármálakreppan náði botni árið 2009 og viðspyrna tók við á mörkuðum.
Á Íslandi hefur vísitala hlutabréfamarkaðarins hækkað um 22,25 prósent á einu ári, en í dag hækkaði hún um 1,61 prósent.
Í dag hækkuðu bréf mest í Högum, um rúmlega fjögur prósent, og bréf Icelandair hækkuðu um tæplega 4 prósent.
Mest var velt með bréf Arion banka, 1,3 milljarðar, en marksvirði bankans, sem er skráður á markað á Íslandi og í Svíþjóð, hefur hækkað um rúmlega 30 prósent á einu ári.
Markaðsvirði skráða hlutabréfa í kauphöllinni nemur nú rúmlega 1.200 milljörðum króna. Íslenskir lífeyrissjóðir eru stærstu eigendur hlutafjár á hinum skráða íslenska markaði, með um 50 prósent hlutabréfa.