Sunna Ósk Logadóttir hefur verið ráðin til starfa á ritstjórn Kjarnans. Hún hefur þegar hafið störf.
Sunna Ósk hefur unnið við blaðamennsku í yfir tuttugu ár. Hún hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu árið 1999, var fréttastjóri á blaðinu á árunum 2008-2012 og fréttastjóri á mbl.is til ársins 2016.
Síðustu ár hefur Sunna Ósk, sem er landfræðingur að mennt, m.a. einbeitt sér að skrifum um umhverfismál. Hún hefur þrívegis hlotið Blaðamannaverðlaun Íslands. Fyrst árið 2005 fyrir ítarlega og greinargóða umfjöllun um rekstur og starfsemi Landspítala – háskólasjúkrahúss í kjölfar sameiningar. Næst árið 2015 fyrir áhrifamikla umfjöllun um heimsókn sína til Líbanon þar sem hún ræddi við sýrlenska flóttamenn og starfsmenn flóttamannabúða til að kynna sér aðstæður þeirra flóttamanna sem veitt hafði verið hæli á Íslandi. Síðast fékk hún blaðamannaverðlaun 2017 fyrir umfjöllun sína Mátturinn eða dýrðin, þar sem hún fjallaði um togstreitu nýtingar og náttúruverndar, m.a. virkjunaráform á Vestfjörðum og áhrif þeirra á staðbundið samfélag og umhverfi.
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, segir að ráðning Sunnu Óskar sýni í verki þann metnað sem Kjarninn hefur fyrir því að vaxa áfram og verða leiðandi afl í íslenskum fjölmiðlum. „Kjarninn hefur markað sér þá sérstöðu að leggja áherslu á gæði og dýpt í umfjöllun þar sem áherslan er á að upplýsa almenning. Það er því mikið fagnaðarefni að fá jafn reynslumikinn liðsauka og Sunnu Ósk til liðs við okkur, sem hefur fyrir löngu sýnt að hún er á meðal okkar allra færustu blaðamanna.“
Ritstjórnarstefna Kjarnans er að leggja áherslu á gæði og dýpt í umfjöllunum sínum. Að upplýsa almenning í stað þess að einblína á að skapa vefumferð. Þar er lögð áhersla á umfjöllun um alþjóðamál, innlenda þjóðmálaumræðu, viðskipti, efnahagsmál, stjórnmál og loftlags- og umhverfismál.
Lykillinn að því að gera þetta kleift er Kjarnasamfélagið, þar sem einstaklingar styrkja Kjarnann með mánaðarlegu framlagi. Hægt er að gerast styrktaraðili hér að neðan.