Sex sóttu um embætti ríkissáttasemjara. Aðalsteinn Leifsson, Gylfi Arnbjörnsson, Herdís Hallmarsdóttir, Lara De Stefano, Ólafur Þorsteinn Kjartansson og Rannveig S. Sigurðardóttir, hagfræðingur og varaseðlabankastjóri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu.
Félagsmálaráðuneytið auglýsti þann 5. desember síðastliðinn embætti ríkissáttasemjara laust til umsóknar. Umsóknarfrestur var til og með 20. desember síðastliðinn.
Í auglýsingunni sagði að ríkissáttasemjari starfi á grundvelli laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum. Hann annist sáttastörf í vinnudeilum milli launafólks og félaga þess annars vegar og atvinnurekenda og félaga þeirra hins vegar. Skal þess því gætt að afstaða hans sé slík að telja megi hann óvilhallan í málum launafólks og atvinnurekenda, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Enn fremur er lögð áhersla á forystuhæfileika og hæfni í mannlegum samskiptum.
„Umsóknirnar verða nú metnar af sérstakri ráðgefandi hæfnisnefnd sem félags- og barnamálaráðherra mun skipa. Eftirtaldir hafa verið tilnefndir til setu í nefndinni: Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins. Auk þess mun ráðherra skipa Gissur Pétursson ráðuneytisstjóra formann nefndarinnar. Bjarnheiður Gautadóttir, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, mun starfa með nefndinni,“ segir í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, mun skipa í embættið til fimm ára þegar hann hefur fengið tillögur nefndarinnar í hendur.