Alþingi hefur samþykkt lagabreytingu þar sem hámarksviðmið um tekjur og eignir vegna almennra íbúða eru hækkuð. Breytingin tók gildi þann 1. janúar síðastliðinn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bjargi íbúðafélagi.
Hámarksviðmið eru nú eftirfarandi:
- 6.420.000 krónur ári, fyrir skatta (eða 535.000 krónur á mánuði) fyrir hvern einstakling.
- 8.988.000 krónur á ári, fyrir skatta (eða 749.000 krónur á mánuði) fyrir hjón og sambúðarfólk.
- 1.605.000 krónur á ári, fyrir skatta (eða 133.750 krónur á mánuði) fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem býr á heimilinu.
- Þá má heildareign heimilis ekki vera hærri en 6.930.000 krónur.
Í tilkynningunni segir að Bjarg íbúðafélag fagni þessum breytingum sem veiti fleiri einstaklingum og fjölskyldum kost á hagkvæmu og öruggu leiguhúsnæði. Opið sé fyrir skráningar samkvæmt nýju tekjuviðmiði á vef Bjargs.
Þá muni virkir umsækjendur sem áður höfðu fengið höfnun vegna of hárra tekna eða eigna, en falla nú undir ný viðmið fá boð um íbúð eftir því sem þær standa til boða.
Almenna íbúðakerfið er tilraun til að endurreisa einhvern vísi að félagslega húsnæðiskerfinu sem var aflagt undir lok síðustu aldar með þeim afleiðingum að félagslegum íbúðum fækkaði um helming milli áranna 1998 og 2017.
Almennar íbúðir fá stofnframlög samkvæmt lögum og tilgangur þeirra er að auka húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna. Hugmyndin er að skapa framboð af íbúðum sem hægt er að leigja þannig að kostnaðurinn verði ekki umfram 25 prósent af tekjum.