Við gerum ráð fyrir 25-30 prósent aukningu á farþegum til landsins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Þetta segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu til kauphallar, en félagið flutti um 25 prósent fleiri farþega til Íslands í fyrra en árið 2018.
Samtals voru það um 1,9 milljónir farþega. „Það er í samræmi við áherslu Icelandair á ferðamannamarkaðinn til Íslands á síðasta ári,“ segir Bogi Nils.
Í desember fjölgaði farþegum Icelandair til Íslands um ellefu prósent og voru þeir rúmlega 106 þúsund talsins. Farþegum frá Íslandi fjölgaði einnig í desember, eða um átta prósent, og fjölgaði um átján prósent á árinu í heild.
Tengifarþegum fækkaði um níu prósent í desember en fækkun þeirra var níu prósent á árinu í heild. Sætanýting í millilandastarfsemi félagins var 80.7 prósent í desember samanborið við 79.6 prósent á sama tíma 2018.
Icelandair hefur aldrei flutt jafnmarga farþega í millilandaflugi og á árinu 2019 eða alls um 4,4 milljónir farþega, sem er 6% aukning á milli ára.
Þá batnaði komustundvísi umtalsvert og var 80 prósent í desember samanborið við 73.7 prósent í desember 2018. Heildarstundvísi á árinu 2019 jókst um tæp 12 prósentustig á milli ára.
Markaðsvirði Icelandair lækkaði um rúmlega 2 prósent í dag, og er nú um 40 milljarðar króna. Eigið fé félagsins var um 500 milljónir Bandaríkjadala í lok þriðja ársfjórðungs í fyrra, eða sem nemur rúmlega 65 milljörðum króna.