Lára Björg Björnsdóttir, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, hefur sagt upp störfum. Frá þessu greinir hún í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni. Hún segist kveðja forsætisráðuneytið og yndislegt samstarfsfólk þar og í öðrum ráðuneytum með söknuði og hlýju.
Lára Björg var ráðin í stöðuna í desember árið 2017 en hún hafði áður starfað við almannatengsl og skipulagningu viðburða, sem og blaðamennsku og fréttaskrif um árabil.
„Ég hef verið heppin að fá að vinna við það sem elska síðustu tvö árin. Mér þykir ótrúlega vænt um þennan tíma sem er því miður á enda,“ skrifar hún en hún hættir af persónulegum ástæðum.
„Ég kveð því forsætisráðuneytið og yndislegt samstarfsfólk þar og í öðrum ráðuneytum með söknuði og hlýju. Og ekki má gleyma fjölmiðlunum góðu fyrir ánægjuleg samskipti, fjölmarga kaffibolla og skemmtilegar stundir á allskonar blaðamannafundum við allskonar aðstæður -og á ýmsum tímum sólarhrings! Takk.“