Háskólaráð samþykkti á fundi sínum í dag að tilnefna Jón Atla Benediktsson, prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, í embætti rektors Háskóla Íslands til næstu fimm ára. Jón Atli hefur gegnt embættinu frá árinu 2015.
Jón Atli var sá eini sem sótti um embættið eftir að það var auglýst til umsóknar í byrjun desember í fyrra.
Hann ber ábyrgð á framkvæmd stefnu háskólans og tengslum háskólans við innlenda og erlenda samstarfsaðila. Rektor ber ábyrgð á og hefur eftirlit með allri starfsemi háskólans, þar með talið ráðningar- og fjármálum einstakra fræðasviða og stofnana. Hann ber ábyrgð á gerð starfs- og rekstraráætlana og að þær séu samþykktar af háskólaráði. Á milli funda háskólaráðs fer rektor með ákvörðunarvald í öllum málum háskólans.