„Það er mikilvægt að undirbyggja jarðveginn vel fyrir starfslok og við viljum undirbúa ánægjuleg efri ár. Við viljum að ellilífeyrisþegar búi við fjárhagslegt öryggi og þess vegna þarf að aðlaga lífeyriskerfið að breyttum aðstæðum – í hnotskurn; vegna lækkunar á vöxtum þarf að spara meira og vegna hækkandi lífaldurs þarf að spara lengur.“
Þetta segir Valdimar Ármann í grein um stöðu lífeyriskerfisins, í nýjustu útgáfu Vísbendingar.
Í greininni er fjallað um áskoranir sem lífeyriskerfið stendur frammi fyrir, meðal annars vegna hækkandi lífaldurs og síðan breyttra aðstæðna á fjármálamarkaði, með lægra vaxtastigi. Nauðsynlegt er að bregðast við, segir Valdimar í greininni.
Í henni segir meðal annars:
„Lífaldur mannkyns hefur verið að lengjast og allar líkur eru á því að meðalævi og ævilíkur haldi áfram að aukast; nýjar kynslóðir munu lifa lengur og lengur. Það ætti að vera ánægjulegt að lifa lengur, en gera þarf ráðstafanir fjárhagslega til að mæta hækkandi lífaldri og einnig þarf að líta til hvort grípa þurfi til ráðstafana í lífeyriskerfinu. Jafnframt hafa komið fram áhyggjur fleiri aðila undanfarið af tryggingafræðilegri stöðu lífeyrissjóðanna og þeim áskorunum sem eru framundan.
Meðalævilengd kvenna er nú um 84 ár og karla um 80 ár en á aðeins 30 árum hefur hún aukist úr rúmlega 80 árum hjá konum og úr 74 árum hjá körlum (heimild: Félag íslenskra tryggingastærðfræðinga). Spár gera ráð fyrir að á næstu 30 árum aukist meðalævilengd kvenna í 87 ár og í 83 ár hjá körlum (heimild: Hagstofa Íslands). Nú er lífeyrisaldur í flestum tilvikum 65-70 ára þannig að hækkandi lífaldur þýðir einfaldlega fleiri ár á ellilífeyri; hvaðan á sá ellilífeyrir að koma?
Á sama tíma og lífaldur er að aukast er viðmiðunaraldur fyrir töku eftirlauna í lífeyrissjóðakerfinu óbreyttur í 67 árum og er ekki á neinn hátt tengdur við hækkandi lífaldur lífeyrisgreiðenda eða væntan lífaldur nýrra sjóðsfélaga. Til að mæta hækkandi lífaldri og föstum viðmiðunaraldri fyrir töku eftirlauna þarf að ná hærri ávöxtun, eða spara meira, til að ná þeirri réttindaávinnslu sem stefnt er að.
Ef litið er á mögulega ávöxtun er erfitt að sjá fram á betri tíð en verið hefur á Íslandi, þar sem á síðustu 15 árum hefur ávöxtunarkrafa langra verðtryggðra skuldabréfa lækkað úr 4% í um 1,3% (raunkrafa á Íbúðabréfi með lokadag árið 2044). Til að setja þessa lækkun á raunvöxtum í fjárhagslagt samhengi þá þarf í dag að leggja fyrir 82 krónur á 1% raunvöxtum til að eiga 100 krónur eftir 20 ár en einungis 45 krónur ef vextir eru 4%.“
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.