Alls voru brottfarir erlendra farþega frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll, sem notaðar eru til viðmiðunar um hversu margir ferðamenn heimsóttu landið, 1.986.153 í fyrra. Það er um 329 þúsund færri en árið 2018, sem var metár, en þá voru brottfarir 2.315.925. Til samanburðar þá búa um 364 þúsund manns á Íslandi um þessar mundir. Ferðamönnum fækkaði því um tæplega eina íslenska þjóð í fyrra.
Ferðamennirnir sem flugu frá Íslandi voru því 14,2 prósent færri í fyrra en árið á undan og tæplega tíu prósent færri en þeir voru árið 2017. Ferðamenn í fyrra voru hins vegar fleiri en árið 2016.
Þetta kemur fram í nýjum tölum Ferðamálastofu, sem heldur utan um farþegatölfræði til og frá landinu.
Gjaldþrot WOW air vatnaskil
Viðbúið var að ferðamönnum myndi fækka á síðasta ári, sérstaklega eftir að WOW air fór í þrot í lok mars 2019. Frá þeim tíma, og fram í desember, fækkaði brottförum um Keflavíkurflugvöll um 12,7 til 23,6 prósent í hverjum mánuði. Í desember var fækkunin hins vegar 8,6 prósent sem er í fyrsta sinn frá þroti WOW air sem hún er undir tveggja stafa tölu.
Bandaríkjamönnum fækkar mikið en Kínverjum fjölgar
Flestir sem heimsóttu Íslands á síðasta ári eru frá Bandaríkjunum, eða 464 þúsund manns. Þeim fækkaði um þriðjung milli ára og spilar gjaldþrot WOW air þar stóra rullu, enda flaug flugfélagið á nokkra áfangastaði í Norður-Ameríku.
Bretar komu þar á eftir en brottfarir þeirra frá Íslandi mældust tæplega 262 þúsund árið 2018 og fækkaði þeim um tólf prósent milli ára. Samtals voru brottfarir Bandaríkjamanna og Breta 36,6 prósent af heild.Þá komu 132 þúsund Þjóðverjar til landsins í fyrra en þeim fækkaði einnig lítillega á milli ára.
Brottförum Kínverja frá Keflavíkurflugvelli fjölgaði hins vegar umtalsvert, eða um 10,9 prósent milli ára, og alls komu 99 þúsund slíkir til Íslands í fyrra.