Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti tillögur verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni er varðar endurskoðun á meðal annars skilgreiningu á tengdum aðilum í lögum um stjórn fiskveiða á ríkisstjórnarfundi í morgun. Í tillögunum er hvorki tekin afstaða til reglna um hámarksaflahlutsdeild né kröfu um hlutfall meirihlutaeignar í tengdum aðilum. Þau mál er enn til skoðunar hjá nefndinni og verður fjallað um þau í lokaskýrslu hennar, sem á að skila í mars næstkomandi.
Í tillögunum, sem eru fimm talsins, felst að skilgreining á tengdum aðilum verði látin ná til hjóna, sambúðarfólks og barna þeirra, að ákveðin stjórnunarleg tengsl milli fyrirtækja leiði til þess að fyrirtækin eru talin tengd nema sýnt sé fram á hið gagnstæða, að skilgreint verði hvað felst í raunverulegum yfirráðum, að aðilar sem ráða meira en sex prósent af aflahlutdeild eða 2,5 prósent af krókaflahlutdeild skulu tilkynna til Fiskistofu áætlaðan samruna, eða kaup í félagi sem ræður yfir hlutdeild eða kaup á hlutdeild og koma kaupin ekki til framkvæmda nema samþykki Fiskistofu liggi fyrir og að Fiskistofu verði veittar auknar heimildir til afla gagna.
Í nóvember, í kjölfar Samherjamálsins, óskaði Kristján Þór eftir því að verkefnastjórnin myndi skila þeim hluta vinnu sinnar sem snéri að tengdum aðilum fyrir 1. janúar 2020. Henni var skilað skriflega 30. desember 2019.
Í tilkynningu segir Kristján Þór að samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu megi rekja tilraunir starfsmanna Fiskistofu aftur um rúman áratug til að skilgreina hugtökin „tengdir aðilar“ og „raunveruleg yfirráð“ í lögum um stjórn fiskveiða. „Það sjá allir að slík staða er óviðunandi. Þær tillögur sem nú liggja fyrir eru til þess fallnar að skýra það hvað felst í þessum hugtökum en jafnframt stuðla að skilvirkara eftirliti með reglum um hámarksaflahlutdeild. Það er um leið mikill styrkur í því að starfshópurinn sem ég skipaði í mars sl. nái samstöðu um þetta flókna mál og gefur vonir um að þessar tillögur geti orðið grunnur að því að færa það til betri vegar.“
Eftirlit og eftirfylgni í molum
Ríkisendurskoðun benti á það í stjórnsýsluúttekt á Fiskistofu, sem birt var í janúar 2019, að hún kanni ekki hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum væri í samræmi við lög. Þ.e. að eftirlitsaðilinn með því að enginn hópur tengdra aðila ætti meira en 12 prósent af heildarafla væri ekki að sinna því eftirliti í samræmi við lög.
Hingað til hefur eftirlitið með þessu verið þannig háttað að starfsmenn frá Fiskistofu hafa farið tvisvar á ári og spurt sjávarútvegsfyrirtækin um hversu miklum kvóta þau og tengdir aðilar halda á. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar var um tvö dagsverk að ræða á ári. „Fiskistofa treystir nánast alfarið á tilkynningarskyldu fyrirtækja við eftirlit með samþjöppun aflaheimilda,“ sagði í skýrslunni.
Ríkisendurskoðun sagði í skýrslu sinni að ráðast þyrfti í endurskoðun á ákvæðum laga um stjórn fiskveiða um „bæði yfirráð og tengsl aðila svo tryggja megi markvisst eftirlit með samþjöppun aflaheimilda“.
Sú endurskoðun var í kjölfarið boðuð með skipun áðurnefndrar verkefnastjórnar og því flýtt að hann skilaði hluta af tillögum sínum, þeim sem snéru að kvótaþaki og skilgreiningu á tengdum aðilum, í kjölfar þess að Samherjamálið kom upp.
Samherji og aðilar tengdir Brim með mikinn kvóta
Nokkrir tengdir hópar eru mjög umsvifamiklir í íslenskum sjávarútvegi og halda á stórum hluta úthlutaðs kvóta. Á meðal þeirra er Samherji, stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins.
Í september 2019 var Samherji, stærsta útgerðarfyrirtæki landsins sem nýlega var ásakað um vafasama og mögulega ólöglega viðskiptahætti víða um heim, með 7,1 prósent úthlutaðs kvóta. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,3 prósent kvótans og Sæból fjárfestingafélag heldur á 0,64 prósent hans. Síldarvinnslan heldur á 5,3 prósent allra aflaheimilda og sjávarútvegsfyrirtækið Bergur-Huginn er síðan með 2,3 prósent kvótans en það er að öllu leyti í eigu Síldarvinnslunnar.
Brim er það sjávarútvegsfyrirtæki sem heldur á mestum kvóta, en félagið fór yfir hámark sem lög heimila í kvóta, í krókaaflahlutdeild í þorski, í nóvember þegar stjórn þess samþykkti samninga um kaup á tveimur sjávarútvegsfyrirtækjum í Hafnarfirði, Fiskvinnslunni Kambi og Grábrók. Hjálmar Kristjánsson átti 39 prósent í Kambi og allt hlutafé í Grábrók. Brim var því að kaupa eignir af bróður forstjóra síns. Samanlagt kaupverð nam rúmlega þremur milljörðum króna.
Stærsti eigandi Brim er Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á um 46,26 prósent hlut í því félagi eftir að hafa selt stóran hlut til KG Fiskverkunar fyrir skemmstu. Það félag var 1. september síðastliðinn með 3,9 prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Auk þess var félagið Ögurvík (í eigu Brims) með 1,3 prósent aflahlutdeild.
Þann 10. desember síðastliðinn greindi Kjarninn frá því að Útgerðarfélag Reykjavíkur hefði keyptný 33,3 prósent hlut KG fiskverkunar í eignarhaldsfélaginu Kristján Guðmundsson ehf., sem átti 37 prósent í Útgerðarfélagi Reykjavíkur.
Útgerðarfélagi Reykjavíkur og mun hverfa úr öllum stjórnunarstörfum í félaginu. Í orðsendingu sem Kjarnanum barst frá Útgerðarfélagi Reykjavíkur segir að þar með séu „rofin fjárhagsleg tengsl á milli bræðranna Guðmundar og Hjálmars Kristjánssona. Eignarhald félaga þeirra bræðra á hlutafé í Brimi hf. er aðskilið.“
Útgerðarfélag Reykjavíkur er þar af leiðandi að uppistöðu í eigu Guðmundar Kristjánssonar, sem er einnig forstjóri Brims. Eignarhlutur félagsins í Brim er nú 36,13 prósent. Auk þess eiga tvö tengd félög þess hlut, þar af á FISK-Seafood eignarhaldsfélag, í 100 prósent eigu Útgerðarfélags Reykjavíkur, 10,05 prósent hlut. Samtals á þessi samstaða Guðmundar Kristjánssonar því nú 46,26 prósent í sjávarútvegsrisanum.
Félag Hjálmars Þór Kristjánssonar, KG Fiskverkun á Rifi, er líka á meðal stærstu eigenda Brims, með 6,5 prósent eignarhlut.
Þeir bræður eru ekki skilgreindir sem fjárhagslega tengdir og því nær eignarhlutur samstæðu Guðmundar Kristjánssonar ekki yfir þau 50 prósent mörk sem þarf til að hann teljist tengdur aðili í skilningi laga um hámarksúthlutun á aflahlutdeild.
Samanlagður kvóti þessara þriggja félaga (Brims, Ögurvíkur og Útgerðarfélags Reykjavíkur), sem eru ekki skilgreind sem tengd, var 15,6 prósent í byrjun september síðastliðins. Sú tala gæti hafa tekið breytingum enda mikil viðskipti átt sér stað innan þessa mengis síðustu mánuði.
Fjórir hópar halda á rúmlega helming
Kaupfélag Skagfirðinga á síðan FISK Seafood, sem heldur á 5,3 prósent heildarkvótans. FISK á 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er með fimm prósent heildaraflahlutdeild. Þá eignaðist FISK allt hlutafé í Soffanías Cecilsson hf. síðla árs 2017, en það fyrirtæki heldur á um 0,3 prósent kvótans. Samtals nemur heildarkvóti þessara þriggja ótengdu aðila 10,6 prósent, og er því undir 12 prósent markinu þótt þeir yrðu skilgreindir með öðrum hætti.
Sú breyting hefur hins vegar orðið á, frá 1. september síðastliðnum, að Útgerðarfélag Reykjavíkur keypti ríflega 10,18 prósent hlut FISK Seafood í Brim, sem FISK hafði keypt í ágúst m.a. af lífeyrissjóðnum Gildi, á 6,6 milljarða króna, á tæplega átta milljarða króna þann 9. september. Hagnaður FISK var, samkvæmt þessu hátt í 1,4 milljarðar króna á nokkrum dögum. Í grein sem nokkrir sveitarstjórnarmenn í Skagafirði skrifuðu á vefinn Feyki (í eigu Kaupfélags Skagfirðinga) 20. september 2019 var óvænt greint frá því að um 4,6 milljarðar króna af þessum tæplega átta milljarða króna kaupverði hefði verið greitt með aflaheimildum. „Það þýðir um 10 prósent aukningu í aflaheimildum FISK Seafood í tonnum og um leið umtalsverða aukningu í umsvifum félagsins hér á heimaslóðunum,“ sagði í greininni.
Samanlagt héldu þau félög sem talin voru upp hér að ofan, og tengjast Samherja, Útgerðarfélagi Reykjavíkur og Kaupfélagi Skagfirðinga, en eru samt sem áður ekki tengdir aðilar, alls á 42,2 prósent af öllum kvóta í landinu í byrjun september 2019. Ef við er bætt Vísi og Þorbirni í Grindavík, sem héldu samanlagt á 8,4 prósent af heildarkvótanum og hafa verið í sameigingarviðræðum um nokkurra mánaðar skeið, þá fer það hlutfall yfir 50 prósent.
Fjórir hópar halda því á rúmlega helming úthlutaðs kvóta.