Arion banki, sem er skráður á markað á Íslandi og í Svíþjóð, hefur ákveðið að kaupa upp meira af eigin bréfum á íslenska markaðnum en áður var áætlað, en minna á þeim sænska.
Samkvæmt endurkaupaáætlun sem birt var í lok október í fyrra ætlaði bankinn að kaupa 1,14 prósent af útgefnum hlutum sínum í Svíþjóð og 2,11 prósent af útgefnum hlutum sínum á Íslandi. Í tilkynningu til Kauphallar fyrir helgi kom hins vegar fram að bankinn hafi ákveðið að breyta skiptingunni á milli markaða. Nú ætlar bankinn að kaupa 0,65 prósent af útgefnum hlutum í Svíþjóð og 2,6 prósent af útgefnum hlutum hérlendis. Fjárhæð endurkaupanna verður ekki meiri en sem nemur 900 milljónum króna í Svíþjóð og 3,6 milljörðum króna á Íslandi.
Margháttaðar aðgerðir
Aðgerðirnar sem þurfti að grípa til voru eftirfarandi: Breyta fjármögnun bankans þannig að hægt væri að greiða út mikið af því eigin fé sem var að finna í honum, fækka starfsfólki verulega og minnka þannig rekstrarkostnað, selja undirliggjandi eignir sem væru ekki hluti af kjarnastarfsemi og taka svo til í útlánum.
Starfsfólki bankans hefur fækkað hratt síðan. Samstæðan var með 933 starfsmenn í lok þriðja ársfjórðungs 2o18 en ári síðar voru þeir orðnir 802 og hafði fækkað um 14 prósent. Fjármögnun bankans hefur verið kúvent með útgáfu víkjandi skuldabréfa. Arion banki hefur minnkað heildarumfang útlána sinna til að minnka greiðslur í sérstakan bankaskatt og til að reyna að breyta samsetningu eigna sinna svo bankinn þurfi ekki að uppfylla jafn ströng eiginfjárviðmið og hann gerir í dag.
Í nýlegri fjárfestakynningu, sem aðstoðarbankastjóri Arion banka kynnti á markaðsdegi hans í London 12. nóvember 2019, kom fram að bankinn ætli sér að minnka fyrirtækjaútlán sín um 20 prósent til viðbótar fyrir lok næsta árs. Áhersla Arion banka verður þá á viðskiptavini sem þurfa á bilinu 500 til 10 milljarða króna fjármögnun. Stærri kúnnum verði beint í skuldabréfaútboð þar sem Arion banki hyggst verða milliliður og taka þóknanir fyrir, en lánin sjálf verða ekki hluti af efnahagsreikningi bankans.
Breytingar á eignarhaldi
Frá því að Arion banki var skráður á markað hefur eignarhald hans tekið stakkaskiptum. Uppistaðan í upphafi voru sjóðir sem tengdust gamla kröfuhafahópi Kaupþings og þeir eru enn stærstu hluthafarnir. Allra stærstur er fjárfestingasjóðurinn Taconic Capital með 23,5 prósent hlut og sjóður tengdur Och-Ziff með 9,3 prósent hlut. Samanlagt fara þessir tveir sjóðir með um þriðjungshlut.
Hlutur íslenskra lífeyrissjóða hefur smátt og smátt verið að aukast, Gildi lífeyrissjóður á stærstan hlut íslenskra lífeyrissjóða, eða 8,79 prósent hlut. Hinir tveir stóru sjóðirnir, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (3,67 prósent) og Lífeyrissjóður verzlunarmanna (3,47 prósent) eru einnig á meðal tíu stærstu hluthafa bankans.
Stærstu íslensku einkafjárfestarnir í hluthafahópnum eru Stoðir hf. með tæplega fimm prósent hlut og Hvalur hf., þar sem Kristján Loftsson er stærsti hluthafinn, með 1,45 prósent hlut.