Í nýrri könnun sem send var á 735 fyrirtæki eða á alla umsækjendur um styrk til Tækniþróunarsjóðs síðustu þrjú ár fyrir sumarið 2019 kemur fram að 73,5 prósent aðspurðra telji að séríslenskur gjaldmiðill hafi neikvæð áhrif á rekstur nýsköpunarfyrirtækja.
Gallup framkvæmdi könnunina fyrir Northstack og Tækniþróunarsjóð um umhverfi nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi og voru niðurstöður hennar kynntar á viðburði skipulögðum af Icelandic Startups í dag.
Í könnuninni kemur meðal annars fram að svarendur séu almennt jákvæðir fyrir framtíð nýsköpunar, eða 75,8 prósent, og telji almenningsálitið vera jákvætt í garð nýsköpunar, eða 75,7 prósent.
61% telur að bankaþjónusta á Íslandi henti illa eða mjög illa
Einungis 18,2 prósent svarenda eru sammála því að Ísland sé góður staður fyrir fyrirtæki í örum vexti og 18,9 prósent eru sammála því að landið sé gott fyrir alþjóðleg nýsköpunarfyrirtæki.
Misgóð vitund er um ívilnanir meðal svarenda. 51,2 prósent vissu ekki af ívilnunum fyrir erlenda sérfræðinga og 22,8 prósent vissu ekki af endurgreiðslum vegna rannsókna- og þróunarstarfs.
Rúmlega helmingur, eða 61 prósent, telur að bankaþjónusta á Íslandi henti illa eða mjög illa fyrir nýsköpunarfyrirtæki.
Könnunin var framkvæmd síðasta sumar og var úrtakið þau 735 fyrirtæki sem höfðu sótt um styrk til Tækniþróunarsjóðs þrjú ár fyrir könnunina.
Grunnur til að byggja ofan á
Kristinn Árni L. Hróbjartsson, stofnandi Northstack, segir við tilefnið að ekki hafi verið gerð svo viðamikil könnun um umhverfi nýsköpunar á Íslandi, samkvæmt hans vitneskju. „Markmiðið er að búa til grunn, sem með tímanum er hægt að byggja ofan á, og vonast ég eftir því að könnunin verði endurtekin reglulega, til að fylgjast með þróun mála,” segir hann.
Umhverfi nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi er samstarfsverkefni Northstack, Gallup og Tækniþróunarsjóðs. Markmið verkefnisins er að kortleggja viðhorf forsvarsfólks nýsköpunarfyrirtækja til umhverfis nýsköpunar á Íslandi.
Á vefsíðu verkefnisins kemur fram að forsvarsmenn þess hafi valið að birta gögnin hrá og án túlkunar á Nýsköpunarlandið.is, til að gefa umhverfinu og öllum þátttakendum þess aðgang að gögnunum.