Kærunefnd jafnréttismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Seðlabanki Íslandsi hafi brotið lög þegar bankinn réð Stefán Rafn Sigurbjörnsson sem upplýsingarfulltrúa bankans, í stað hæfari konu.
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, fyrrverandi ritstjóri og nú dagskrárgerðarmaður á Rás 2 og blaðamaður á Læknablaðinu, kærði ráðninguna og komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu að Gunnhildur hefði staðið mun framar þegar kom að menntun og reynslu.
Þetta er í þriðja skiptið frá því árið 2012 sem Seðlabankinn er staðinn að því að brjóta gegn jafnréttislögum.
Árið 2012 var bankinn talinn hafa brotið lög þegar karl var ráðinn í stöðu sérfræðings í lánamálum ríkisins hjá bankanum. Þremur árum seinna braut bankinn aftur lög þegar í ljós kom að kona hafði verið með lægri laun en karl, þrátt fyrir sömu menntun og svipaða reynslu.
Í úrskurði nefndarinnar segir að ljóst sé að Gunnhildur Arna hafi meiri menntun og reynslu, heldur en Stefán Rafn, og þá hafi hún í það minnsta ekki minni reynslu heldur en Stefán Rafn, þegar kemur að efnahagsmálum almennt, enda með meiri menntun í ljósi MBA-gráðu hennar.
Í úrskurðinum segir meðal annars orðrétt: „Að öllu framangreindu virtu hefur kærði ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starf upplýsingafulltrúa á sviði alþjóðasamskipta og skrifstofu seðlabankastjóra, sbr. 4. og 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Telst kærði því hafa brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laganna.“
Stefán Rafn var ráðinn í júní síðastliðnum en 51 sótti um starfið. Hann tók til starfa áður en Ásgeir Jónsson, núverandi seðlabankastjóri, tók við sem seðlabankastjóri.
Í kærunefnd jafnfréttismála sitja Björn L. Bergsson, Arnaldur Hjartarson og Guðrún Björg Birgisdóttir.