Viðskiptasamningur milli Kína og Bandaríkjanna (Phase 1) var undirritaður í dag. Hann markar tímamót í tollastríði landanna tveggja, en lausir endar eru þó eftir enn, og ekki er búist við að það takist að leysa úr þeim fyrr en í lok árs, og jafnvel ekki fyrr en eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember, að því er fram kemur í umfjöllun Washington Post.
Tollastríðið hefur birst heiminum með neikvæðum hætti, að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og hefur það dregið úr hagvexti og haft víðtækar hliðarverkanir.
LIVE: POTUS Signs the Phase One Trade Agreement! https://t.co/teqGqjdgeZ
— The White House (@WhiteHouse) January 15, 2020
Í stuttu máli og einföldu, þá hefur tollastríðið falist í því að allt að 25 prósent tollar hafa verið settir á inn- og útflutning ýmissa vörutegunda á milli Bandaríkjanna og Kína. Fyrst byrjuðu Bandaríkjamenn að beita tollum og síðan svöruðu Kínverjar.
Hart tekist á
Þannig hefur staðan verið í tvö ár, en Donald Trump Bandaríkjaforseti var með það sem eitt af sínum helstu stefnumálum, í kosningabaráttunni fyrir kosningarnar 2016, að endursemja um viðskipti við Kína.
Hann sagði „Kína" (China) oft á fundum, einungis til að minna á að nauðsynlegt væri að endursemja við Kína – þar sem efnahagsrisinn í Asíu væri að „stela störfum“ frá bandarískum almenningi.
Kínverjar hafa frá upphafi talað fyrir því, að tollastríðið sé ónauðsynlegt, en hafa talið sig þurfa að svara tollum Bandaríkjanna með sama meðali. Þannig hafa tollar, allt að 25 prósent, verið lagðir á innfluttar landbúnaðarafurðir frá Bandaríkjunum, sem hafa leitt til erfiðleika víða í Bandaríkjunum. Í Kína hefur svipað verið uppi á teningnum, meðal annars þegar kemur að heimilisvörum sem framleiddar eru í Kína. Þar á meðal eru þvottavélar og fleiri raftæki.
Bitnað á Íslandi
Þá hefur tollastríðið einnig haft mikil áhrif á viðskipti með hrávörur, og má nefna sólarkísil þar á meðal. Viðskipti með hann hafa verið erfiðari, og hefur það leitt til birgðasöfnunar og verðfalls. Þetta hefur meðal annars haft neikvæðar afleiðingar á Íslandi, þar sem rekstur PCC á Bakka hefur reynst mun erfiðari og þá hefur fyrirhuguð sala Arion banka á kísilverksmiðjunni í Helguvík gengið erfiðlega – meðal annars vegna erfiðra markaðsskilyrða.
Samanlagt hefur tollastríðið tekið til viðskipta fyrir um 500 milljarða Bandaríkjadala, en óbeinu áhrifin hafa verið mun umfangsmeiri, að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Röskun á hefðbundnum viðskiptaleiðum hefur þannig leitt til nýrra áskorana - og fyrir suma nýrra tækifæra. Má þar nefna Víetnam sem dæmi, en viðskipti í gegnum Víetnam hafa heldur aukist við tollastríðið. Hagvöxtur hefur þar verið mikill undanfarin ár, á bilinu 6 til 10 prósent, en um 90 milljónir manna búa í Víetnam.
Nýtt upphaf
Samkvæmt yfirlýsingunni sem undirrituð var í dag - af fulltrúum Kína og Bandaríkjanna – þá þykir hún marka „nýtt upphaf“ í viðskiptum ríkjanna. Trump hefur í dag sagt að það muni endurheimta störf fyrir bandarískan almenning, og glæða bandarískt efnahagslíf meira lífi. Kínverjar eru hófsamari í orðavali, og segja að áfram verði unnið að því að styrkja viðskiptatengslin við Bandaríkin.
Setur baráttuna af stað í lykilríkjum
Fyrir Trump er þessi áfangi að mörgum leyti pólitískur sigur, enda munu næstu mánuðir einkennast af kosningabaráttu fyrir kosningarnar í nóvember. Líkt og árið 2016 er líklegt að barist verði um fylgið í mörgum ríkjum þar sem viðskiptin við Kína hafa lengi verið mikið hitamál. Má þar nefna ríki eins og Wisconsin, Michigan, Ohio og Iowa.
Trump lagði í raun grunni að sigri í kosningunum árið 2016, með því að vinna baráttuna í þessum ríkjum. Mjótt var á munum, og má sem nefna að Trump fékk 47,2 prósent á meðan Hillary Clinton, fulltrúi Demókrata, fékk 46,5 prósent, í Wisconsin. Þetta skilaði Trump tíu kjörmönnum. Í Michigan var svipað uppi á teningnum, nema hvað munurinn var enn minni. Trump fékk 47,3 prósent, en Hillary 47 prósent. Það skilaði Trump 16 kjörmönnum.
Trump is about to deliver a speech at a rally in Milwaukee, Wisconsin. Follow me for a video thread. pic.twitter.com/KKixnCwUFZ
— Aaron Rupar (@atrupar) January 15, 2020
Líklegt verður að teljast, að Trump muni segja „Kína“ ótt og títt á kosningafundum, í fyrrnefndum ríkjum. Undanfarna daga hefur hann talað til fólks í Michigan – og hélt meðal annars fjölmennan kosningafund í Milwaukee, stærstu borg Wisconsin, þar sem hann sagðist fulltrúi fólksins.
Þrátt fyrir neikvæð áhrif tollastríðsins á heimsbúskapinn, að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og flestra greinenda, þá er staða efnahagsmála í Bandaríkjunum um þessar mundir nokkuð sterk. Atvinnuleysi er undir fjórum prósentum, og það lægsta í hálfa öld. Hagvöxtur er talinn hafa verið um 3 prósent í fyrra, en staðfestar tölur um það liggja þó ekki fyrir enn.
The Managers of the impeachment trial of the President are public servants committed to protecting our Constitution – and have the litigation and courtroom experience necessary to execute this task. They will #DefendOurDemocracy. pic.twitter.com/nsGtEVh59n
— Nancy Pelosi (@SpeakerPelosi) January 15, 2020
Mitt í þessari þróun eru Demókratar að sauma að Trump í Bandaríkjaþingi, með ákærum til embættismissis (impeachment) vegna samskipta hans við forseta Úkraínu, þar sem hann óskaði eftir aðstoða við að rannsaka pólitískan andstæðing sinn, Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og einn þeirra sem nú reynir að vera útnefndur forsetaframbjóði Demókrata. Líklegt þykir að Repúblikanar muni verjast ákærunum á hendur Trump, með öllum mögulegum ráðum, en Trump segir þær hluta af „umfangsmestu nornaveiðum í sögunni.“