Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 20,3 prósent, nær óbreytt frá mælingu MMR í desember. Samfylkingin mælist með 16,8 prósent fylgi, rúmlega tveimur prósentustigum hærra en við síðustu mælingu en Miðflokkurinn mælist með 12,9 fylgi fylgi, rúmu prósentustigi minna en við síðustu mælingu. Þá mælast Vinstri-græn með 11,1 prósent fylgi og Píratar með 11 prósent fylgi.
Þetta kemur fram í nýrri MMR könnun sem birtist í dag.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 41,2 prósent, samanborið við 39 prósent í síðustu könnun.
Samkvæmt könnuninni mælist fylgi Viðreisnar nú 10,5 prósent, sama og í síðustu könnun. Fylgi Framsóknarflokksins mælist 8,2 prósent og mældist 8,3 prósent í síðustu könnun. Fylgi Sósíalistaflokks Íslands mælist nú 4,1 prósent og mældist 5,2 prósent í síðustu könnun. Fylgi Flokks fólksins mælist 3,5 prósent og mældist 4 prósent síðast. Stuðningur við aðra mælist 1,5 prósent samanlagt.
Í úrtakinu voru 2.057 einstaklingar, 18 ára og eldri og var könnunin framkvæmd dagana 3. til 13. janúar 2020.