VÍS sendi í gærkvöldi frá sér jákvæða afkomuspá vegna ársins 2019. Fyrri spá hafði gert ráð fyrir að hagnaður tryggingafélagsins yrði 2.508 milljónir króna en nýja spáin áætlar að hann verði 2.950 til 3.050 milljónir króna. Því mun hagnaður VÍS, gangi afkomuspáin eftir, verða 442 til 542 milljónum króna meiri en reiknað hafði verið með. Það þýðir að hagnaður VÍS gæti orðið allt að 22 prósent meiri en upphaflega afkomuspáin sagði til um.
Greint er frá þessu í tilkynningu til Kauphallar Íslands. Þar segir að helsta ástæðan fyrir betri afkomu sé hærri ávöxtun fjáreigna á fjórða ársfjórðungi síðasta árs.
Afkomuspá VÍS fyrir ári 2020 verður birt þann 31. janúar og uppgjör ársins 2019 verður birt þann 27. febrúar næstkomandi.
Í tilkynningu sem VÍS sendi til Kauphallar skömmu fyrir jól í fyrra kom fram að ávöxtun fjárfestingaeigna tryggingafélagsins hefði verið 9,2 prósent frá áramótum og til 20. desember 2019. Þa sagði einnig að samsetta hlutfallið í rekstrinum, sem er tjónakostnaður, endurtryggingakostnaður og rekstrarkostnaður af vátryggingahluta sem hlutfall af iðgjöldum, hefði verið 99,2 prósent það sem af er ári. Á þeim tíma sem tilkynningin var send út hafði VÍS greitt viðskiptavinum rúmlega 15,5 milljarða króna í tjónabætur á árinu 2019.
Virði hlutabréfa í VÍS hækkaði um sjö prósent á síðasta ári. Markaðsvirði félagsins var tæplega 21 milljarður króna við upphaf viðskipta í morgun. Stærstu eigendur VÍS eru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A- og B-deild (samtals 9,59 prósent) Lífeyrissjóður verzlunarmanna (8,13 prósent), breski fjárfestingasjóðurinn LF Miton UK Multi Cap Income [7,23 prósent), og fjárfestingasjóðurinn Lansdowne ICAV Lansdowne Euro (7,25 prósent).