Mannréttindadómstóll Evrópu hefur hafnað ósk Sigríðar Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, um að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í máli sem rekið er fyrir yfirdeild Mannréttindadómstólsins vegna skipunar dómara í Landsrétt.
Frá þessu greindi RÚV í dag, en Sigríður segir í samtali við fréttastofu RÚV að hún hafi talið nauðsynlegt að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, þegar hún hafi séð greinargerð frá Vilhjálmi Vilhjálmssyni hrl., sem er lögmaður stefnandi í málinu. „Þegar ég sá greinargerð stefnanda í málinu, ef svo má að orði komast, sem ég sá ekki fyrr en undir lok desember, að það voru settar fram á hendur mér ásakanir um saknæma háttsemi þannig að ég gat ekki látið hjá líða að koma á framfæri svari við þeim ásökunum,“ er haft eftir Sigríði í frétt RÚV.
Efri deild Mannréttindadómstóls Evrópu ákvað í september að taka hið svokallaða Landsréttarmál fyrir.
Alls munu fimm dómarar taka málið til umfjöllunar.
Dómstóllinn felldi dóm sinn í málinu 12. mars síðastliðinn. Í honum fengu bæði Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og Alþingi á sig áfellisdóm fyrir það hvernig haldið var á skipan 15 dómara við Landsrétt í byrjun júní 2017.
Sigríður fyrir að hafa brotið stjórnsýslulög með því að breyta listanum um tilnefnda dómara frá þeim lista sem hæfisnefnd hafði skilað af sér, og fært fjóra dómara af þeim lista en sett aðra fjóra inn á hann án þess að rannsaka og rökstyðja þá ákvörðun með nægjanlegum hætti. Alþingi fyrir að hafa kosið um skipan dómaranna allra í einu, í stað þess að kjósa um hvern fyrir sig. Sigríður sagði af sér embætti daginn eftir dóminn og óvissa ríkir um starfsemi millidómstigsins vegna dómsins.
Íslenska ríkið ákvað í apríl í fyrra að áfrýja þeirri niðurstöðu og beina því til efri deildar dómsins að taka málið aftur fyrir.