Samkvæmt óendurskoðuðu bráðabirgðauppgjöri Marel fyrir árið 2019 hækka tekjur félagsins um sjö prósent á milli ára og nema 1.284 milljónum evra, eða sem nemur um 177 milljörðum króna.
Þar af voru tekjur fjórða ársfjórðungs 320 milljónir evra, en það er lækkun frá 331 milljónum evra á sama tímabili árið á undan.
EBIT framlegð fyrir árið 2019 var um 13,5 prósent, lítið eitt lægra en árið 2018, sem „skýrist af lágri 10 prósent EBIT framlegð á fjórða ársfjórðungi 2019 (4F18: 14,6%). Þessa tímabundnu lækkun á rekstrarniðurstöðu má einkum rekja til óhagstæðrar samsetningar milli iðnaða og vörutegunda, sem og hækkunar á kostnaði til að mæta breytingum á eftirspurn eftir heimshlutum,“ segir orðrétt í tilkynningu frá Marel til kauphallar.
„Pantanir í ársfjórðungnum námu 303 milljónum evra (4F18: 296m). Frjálst sjóðstreymi í fjórðungnum var sterkt eða 53 milljónir evra (4F18: 41m), en auknar innborganir á pantanir í lok fjórðungsins gefa til kynna betri horfur á markaði og aukna eftirspurn frá viðskiptavinum félagsins,“ segir ennfremur.
Markmið félagsins um tólf prósent árlegan meðalvöxt tekna yfir tímabilið 2017-2026 er óbreytt, segir í tilkynningunni, en Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, segir að fyrirtækið hafi komist í gegnum nokkuð erfitt tímabil, sem einkenndist af viðskiptahindrunum og umróti á mörkuðum, en að bjartari tímar séu nú framundan, hvað það varðar. „Við birtum þessa tilkynningu um meginniðurstöður ársins nú í ljósi þess að rekstrarniðurstöður sýna í kringum 10% EBIT framlegð í fjórða ársfjórðungi, sem er undir væntingum. Þetta þýðir að við lokum árinu með um 13,5% EBIT framlegð, en hún hefur verið um 14-15% síðustu ár. Á sama tíma náðum við að skila 7% tekjuvexti og EBIT var svipað á milli ára. Í samstarfi við viðskiptavini okkar höfum við komist í gegnum erfitt tímabil þar sem markaðaðstæður lituðust af viðskiptahindrunum og umróti á heimsmörkuðum. Við horfum nú fram á bjartari tíma og merkjum aukna eftirspurn og vilja til fjárfestinga á markaði. Horfur fyrir pantanir eru góðar og með aðgerðum til að straumlínulaga rekstur félagsins má búast við auknum tekjum og bættri arðsemi jafnt og þétt eftir því sem líður á árið,“ segir Árni Oddur.
Markaðsvirði félagsins hækkaði um 1,7 prósent í dag og nemur nú um 500 milljörðum króna, en félagið er skráð á markað á Íslandi og í kauphöll Euronext í Amsterdam í Hollandi.