Þær stofnanir sem tengjast eftirliti og vörnum gegn peningaþvætti, skattrannsóknum og skatteftirliti munu fá 200 milljóna króna viðbótarframlag úr ríkissjóði á þessu ári. Þetta er gert í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að grípa til alls sjö aðgerða til að auka traust á íslensku atvinnulífi, en aðgerðaráætlunin var samþykkt á ríkisstjórnarfundi 19. nóvember, nokkrum dögum eftir að opinberun Kveiks, Stundarinnar, Wikileaks og Al Jazeera á meintum mútugreiðslum, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherja í Namibíu og víðar var birt.
Í henni kom fram að ríkisstjórnin ætlaði meðal annars að tryggja viðbótarfjárveitingar til skattrannsókna þar sem komið hefði fram „ýmis atriði sem þarfnast ítarlegrar skoðunar af hálfu Skattrannsóknarstjóra og Ríkisskattstjóra. Í ljósi umfangs og flækjustigs slíkra mála hefur ríkisstjórnin ákveðið að stofnununum verði gert kleift að auka mannafla tímabundið til að geta sinnt þessum verkefnum á sem skjótastan og farsælastan hátt.“ Í aðgerðaráætluninni sagði enn fremur að hugað yrði sérstaklega að fjármögnun rannsóknar héraðssaksóknara „í tengslum við rannsókn embættisins á Samherjamálinu.“
Samkvæmt tilkynningu sem birt var á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins í morgun eru þær stofnanir sem munu skipta með sér viðbótarframlaginu Skatturinn (áður embætti ríkisskattstjóra og tollstjóra), embætti skattrannsóknarstjóra og embætti héraðssaksóknara. Þar segir að fjármunirnir muni fara í eflingu rannsókna og fjölgun rannsakenda hjá embættunum. „Eftir umræðu seint á síðasta ári um getu og stöðu eftirlitsstofnana til að sinna sínum verkefnum og bregðast við óvæntum, flóknum og umfangsmiklum verkefnum var lagt mat á útgjaldaheimildir sem til þyrftu að koma. Ákveðið var að fjármögnun verkefnanna verði tryggð með millifærslum innan málaflokka og ráðstöfunum úr varasjóði. Ákvarðanir um viðvarandi hækkun gjaldaheimilda verða teknar við gerð fjármálaáætlunar 2021-2025.“
Allar stofnanirnar sem um ræðir hafa mál tengd Samherja til skoðunar sem stendur, samkvæmt upplýsingum Kjarnans.
Harðvítugar pólitískar deilur
Þegar Samherjamálið kom upp á yfirborðið í nóvember varð harðvítug pólitísk umræða um hvers konar fjárheimildir embætti héraðssaksóknara, sem sinnir nú efnahagsbrotarannsóknum, þyrfti til að geta tekist á við það. Stjórnarandstaðan ásakaði ríkisstjórnina um að vilja ekki fjármagna nauðsynlegar rannsóknir, við litlar vinsældir ráðamanna. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, rauk meðal annars á dyr þegar óundirbúinn fyrirspurnatími stóð yfir á Alþingi 25. nóvember, og Samherjamálið var til umræðu, þar sem hann var sakaður um að brjóta lög um opinber fjármál. Bjarni svaraði því til í umræðu um málið að ef með þyrfti þá væri mögulegt að sækja fjármagn í varasjóð málaflokka og að hann hefði engar áhyggjur að embætti héraðssaksóknara fengi ekki nægilegt fjármagn ef þyrfti að rannsaka málið.
Ólafur Þór lagði til að starfsmönnum á rannsóknarsviði embættis hans yrði fjölgað um sex í byrjun árs 2020. Hann lagði auk þess til að starfsmönnum verði mögulega fjölgað um tvo til viðbótar síðar á árinu ef verkefnastaða embættisins gefur tilefni til. Meðalkostnaður fyrir hvert starf sem við bætist er áætlaður 15 milljónir króna og því myndi fyrsta aukningin kosta um 90 milljónir króna.
Aukið álag vegna betra eftirlits með peningaþvætti
Í minnisblaðinu var einnig fjallað um aukið álag vegna aukinna umsvifa skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, en hún hét áður peningaþvættisskrifstofa og var færð frá ríkislögreglustjóra yfir til embættis héraðssaksóknara sumarið 2015. Þá starfaði einn maður á skrifstofunni.
Í minnisblaðinu benti Ólafur Þór á að fjölgun starfsmanna og efling skrifstofu fjármálagreininga lögreglu hafi leitt til fleiri greininga þaðan til rannsóknarsviðs embættisins sem þurfi að rannsaka. Taka þurfi tillit til þess við fjárveitingar.
Það bendi til þess að aukið eftirlit með peningaþvætti hafi þegar skilað því að embætti héraðssaksóknara sé að rannsaka fleiri slík mál en áður.
Gátu ekki klárað hrunrannsóknir
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem embættið hefur verið í þeirri stöðu að geta ekki sinnt rannsóknum í málum þar sem grunur leikur á um refsiverða háttsemi.
Í október 2018 sagði Ólafur Þór í viðtali á Hringbraut að niðurskurðurinn sem embætti sérstaks saksóknara, sem síðar var breytt í embætti héraðssaksóknara, var látinn sæta árið 2013, upp á 774 milljónir króna, hafi gert það að verkum að ekki var hægt að klára rannsókn á sumum málum tengdum hruninu. „Auðvitað voru þarna nokkur mál sem við hefðum viljað fara betur ofan í sem við höfðum ekki „resource-a“ til að taka.“
Ólafur Þór sagði þá að um 200 mál hefðu komið inn á borð embættisins tengd hruninu. Af þeim hafi mörg verið sameinuð og á endanum fóru 35 í ákæruferli.
Aðspurður um þau mál sem rötuðu ekki í ákæruferli sagði Ólafur Þór að þar væru fyrst og fremst um mál að ræða sem embættið taldi að myndu ekki ná inn í dóm. „Annars vegar var þá hætt rannsókn eða þá mál voru fullkláruð og svo tekið mat á því hvort þau stæðust sönnunarlega séð. Hvort það væru meiri líkindi en minni að það yrði sakfellt í þeim. Í nokkrum tilvikum var það þannig að það þótti ekki vera. Síðan í restina voru farin að koma inn frekari sjónarmið eins og til dæmis tímalengdin, hvað þetta var búið að taka langan tíma. Þar kom inn í að við erum skorin svolítið hressilega niður strax á árinu 2013, sem gerir það að verkum að sumt að því sem við vorum með það náði ekki fram.“
Þegar Ólafur Þór var spurður um það í þættinum hvernig það stæðist jafnræðissjónarmið að sumir einstaklingar slyppu við ákæru, og mögulega dóm, vegna þess að rannsókn á málum þeirra hefði tekið lengri tíma en hjá öðrum eða vegna þess að embættinu skorti fjármagn, svaraði hann því til að það væri eðlilegt að velta þeirri spurningu upp. „En í mjög mörgum tilvikum var um að ræða mál sem beindust að sömu aðilum og áður höfðu fengið dóma og jafnvel voru komnir með fullnýtta refsiramma, upp í sex ár. Þannig að það var í langflestum tilvikum um slíkt að ræða.