Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur tilkynnt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra Reykjavíkur að Efling muni ekki eiga frekari viðræður við samninganefnd borgarinnar umfram það sem lög krefjast. Frá þessu er greint í tilkynningu sem Efling sendi frá sér í morgun.
Þar segir að samninganefnd Reykjavíkurborgar hafi dreift „villandi upplýsingum til fjölmiðla af samningafundi hjá Ríkissáttasemjara um samningstilboð Eflingar sem lagt var fram 16. janúar síðastliðinn og braut þannig bæði trúnað og lög.“
Þess í stað krefst samninganefnd Eflingar þess að kjaraviðræður við borgina fari héðan í frá fram fyrir opnum tjöldum og telur að það séu eðlileg viðbrögð við meintu trúnaðarbroti embættismanna borgarinnar. Auk þess telur Efling að þannig verði farið rétt með þær kröfur sem Efling setur fram í viðræðunum.
„Borgin er í okkar höndum!“
Í opnu bréfi til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, frá Sólveigu Önnu Jónsdóttur, segir að samninganefnd Eflingar krefjist þess að Dagur axli pólitíska ábyrgð á framgöngu samninganefndar borgarinnar, á þeirri stöðu sem upp er komin í viðræðum vegna þeirra, og á því verkefni að kjaramál félagsmanna Eflingar hjá borginni verði leyst með boðlegum hætti.
Í bréfinu segir enn fremur að í tilboðinu sem kynnt verði á boðuðum opnum fundi á miðvikudag sé fallist á sömu taxtahækkanir og samið var um á almennum vinnumarkaði í apríl síðastliðnum, í hinum svokölluðu Lífskjarasamningum, auk þess sem krafist verði „nauðsynlegrar og tímabærrar leiðréttingar á láglaunastefnu borgarinnar“.
Á þriðjudag mun birtast í dagblöðum opið bréf samninganefndar Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg til Dags B. Eggertssonar, en atkvæðagreiðsla um verkfall 1.800 félagsmanna Eflingar hjá borginni hefst á hádegi sama dag.
Í lok bréfsins segir: „Við erum hér. Við erum á leið í verkfall. Við munum berjast þangað til við höfum verið viðurkennd og okkur tryggt mannsæmandi viðurværi. Borgin er í okkar höndum!“
Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands, fyrir hönd 17 aðildarfélaga sinna, skrifaði í síðustu viku undir nýjan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga með fyrirvara um samþykki félagsmanna í atkvæðagreiðslu. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2020 til 30. september 2023.