Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi um efnahagsmál í umræðum um stöðuna í stjórnmálum í byrjun árs og verkefnin framundan á Alþingi í dag. Þar sagði hún að kólnun væri í hagkerfinu og að allt benti til þess að samdráttur á síðasta ári hefði verið 0,2 prósent. Lífskjarasamningarnir sem gerðir voru í apríl hefðu, og myndu áfram, hjálpa til við mjúka lendingu í efnahagslífinu. Verðbólga væri til að mynda undir markmiðum en helstu afleiðingarnar væru helst á atvinnumarkaði þar sem atvinnuleysi hefur aukist verulega á skömmum tíma. „Þetta er kólnun en ekki skyndileg djúpfrysting eins og við höfum séð oft áður.“
Atvinnuleysi mælist nú hærra en það hefur verið frá árinu 2013. Alls mældist það 4,1 prósent í nóvember 2019. Mest var það á Suðurnesjum, þar sem það mældist 8,4 prósent. Atvinnuleysið bitnar helst á erlendum ríkisborgurum, sem fjölgað hefur verulega hérlendis á undanförnum árum, en 39 prósent allra sem voru án atvinnu voru slíkir í nóvember. Á Suðurnesjum voru til að mynda fleiri Pólverjar án atvinnu en Íslendingar.
Katrín ræddi einnig um efnahagsmál síðustu misseri og minntist á að vefinn Tekjusagan.is. Hún sagði að sá vefur hefði nýverið verið uppfærður fyrir árið 2018 og að þar kæmi fram ráðstöfunartekjur án fjármagnstekna hefur aukist á því ári og hefðu aldrei verið hærri hjá mörgum hópum. „Það eru jákvæð teikn á lofti þegar við skoðum stöðuna árið 2018.“
„Náttúruöflin eru okkur áfram ofarlega í huga,“ sagði Katrín í ræðu sinni. Þar á hún við bæði óveðrið sem gekk yfir í desember og snjóflóðin sem féllu á Flateyri og í Súgandafjörð nýverið.
Í tengslum við Ofanflóðasjóð, sem mikið hefur verið ræddur undanfarið, rifjaði Katrín upp að hann hefði upphaflega verið settur á fót árið 1996 og að verkefni hans hefðu átt að klárast árið 2010. Í fjölmiðlum undanfarið hefur komið fram að um 21 milljarður króna sem greitt hefur verið í sjóðinn með sértækri tekjuöflun hefur ekki verið notaður í þau verkefni sem hann átti að vinna að.
Katrín sagði að þetta væri á ábyrgð nokkurra ríkisstjórna. Til að mynda hefði hægt á fjárveitingum til verkefna Ofanflóðasjóðs á árunum 2004 til 2007 til að sporna við þenslu, meðal annars vegna virkjanaframkvæmda. Síðan var gefið í en aftur dregið úr eftir hrun.
Það væru um það bil 20 milljarða framkvæmdir sem þurfi að ráðast í til að ofanflóðavarnir verði í lagi. Fjármála- og efnahagsráðherra og umhverfisráðherra muni leggja fram nýja áætlun í nánustu framtíð um hvernig verður staðið að þeirri uppbyggingu.