Há laun, í alþjóðlegum samanburði, á tímum krefjandi rekstrarumhverfis í hagkerfinu, þrengja skorðurnar fyrir atvinnulífið að ná vopnum sínum, eftir að áföll í ferðaþjónustu - með gjaldþroti WOW air og samdrætti í sætafromboði, m.a. vegna kyrrsetningar á 737 Max vélum Boeing - dundu á hagkerfinu.
Í ítarlegri grein eftir Gylfa Zoega hagfræðiprófessor, sem birtist í Vísbendingu, er fjallað um stöðu mála. Gylfi segir að engar töfralausnir séu til, svo að það geti skapast aðstæður fyrir kröftugan hagvöxt á nýjan leik.
Í lokaorðum greinar sinnar, segir Gylfi meðal annars: „Staðan er ekki ósvipuð þeirri sem var á fyrri hluta tíunda áratugarins þegar fyrirtæki þurftu að venjast hærra vaxtastigi en raunvextir hækkuðu mikið frá níunda áratug fram á tíunda áratuginn, fyrirtæki sem ekki gátu mörg staðið undir hinum mikla vaxtakostnaði hættu rekstri (t.d. stór hluti Sambands Íslenskra Samvinnufélaga) og önnur hagræddu. Þetta tímabil varði fram á lok áratugarins þegar lítil fjármálabóla, sem fólst í innflæði erlends fjármagns og auknum útlánum bankanna, bjó til hagvöxt sem svo fjaraði út árið 2001. Vextir eru nú lágir í samanburði við vexti tíunda áratugarins en þó mun hærri en áratugina tvo á undan, en launakostnaður mikill. Þetta ástand krefst einnig aðlögunar, að sum fyrirtæki hætti rekstri og önnur endurskipuleggi sig, tækni leysi starfsfólk af hólmi og störf séu flutt úr landi. Við sjáum allt í kringum okkur fyrirtæki leggja niðurstörf og tölvur koma í staðinn.
Stjórnvöld geta brugðist við þessu ástandi á tvennan hátt. Í fyrsta lagi gætu þau reynt að lækka gengi krónunnar til þess að auka hagnað fyrirtækja, einkum í útflutningi. En á þessari leið eru ýmsir meinbugir. Í fyrsta lagi er ekki víst hvernig unnt væri að lækka gengi krónunnar. Beinasta leiðin væri sú að Seðlabankinn byrjaði að kaupa gjaldeyri á ný en slíkt væri kostnaðarsamt fyrir hið opinbera. Vaxtalækkun gæti haft gengisáhrif en lágir vextir í öðrum löndum myndu draga úr gengisáhrifum vaxtalækkana. Jákvæður viðskiptajöfnuður og hagstæð eignastaða gagnvart útlöndum hefur hækkað jafnvægisgengið og skapað traust á gjaldmiðli sem minnkar líkur á gengisfalli. Í öðru lagi er unnt að bíða eftir því að fyrirtæki hafi hagrætt nægilega mikið til þess að hagnaður aukist sem gerir þeim kleift að auka fjárfestingu og þar með hagvöxt. En slíkt ferli getur tekið fjölda ára. Þeim tíma er þó ekki sóað, fyrirtæki bæta rekstur sinn, en hagvöxtur kann að vera lítill um stund.“
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.