Ólafur Örn Nielsen hefur verið ráðinn aðstoðarforstjóri Opinna Kerfa. Hann hefur undanfarið starfað sem stjórnendaráðgjafi en var áður framkvæmdastjóri hugbúnaðar- og ráðgjafafyrirtækisins Kolibri á árunum 2015-2019.
Ólafur kom einnig að stofnun hönnunarfyrirtækisins Form5 á sínum tíma, var vefmarkaðsstjóri WOW air og hugbúnaðarsérfræðingur hjá mbl.is. Þá hefur Ólafur setið í stjórnum samtaka upplýsingatæknifyrirtækja og ÍMARK, félags markaðsfólks á Íslandi.
Ólafur segir að það sé mikill heiður að vera treyst fyrir hlutverki aðstoðarforstjóra. „Það er spennandi áskorun að koma inn í Opin Kerfi á þessum tímapunkti en fyrirtækið, eins og markaðurinn allur, er að ganga í gegnum miklar umbreytingar sem er mestu leyti drifin áfram vegna tækniþróunar. Opin Kerfi ætlar sér stóra hluti og ég hlakka til að takast á við þá áskorun að skrifa nýja kafla við þá rótgrónu sögu sem félagið býr yfir, með því afburðafólki sem hjá félaginu starfar.“