Embætti forseta Alþingis og þingmenn eyddu mestu í utanlandsferðir árið 2015 á tímabilinu 2009 til 2018 en þá var kostnaður vegna þeirra rúmar 74 milljónir króna. Samtals er kostnaður vegna utanlandsferða þingmanna á vegum þingsins og embættis forseta Alþingis rúmar 557 milljónir króna á þessu tíu ára tímabili. Minnstur var kostnaðurinn árið 2009 þegar hann nam 32,5 milljónum króna.
Þetta kemur fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni, þingmanni Viðreisnar, um kostnað vegna utanlandsferða þingmanna og forseta þingsins.
Þorsteinn spurði hver kostnaður Alþingis hefði verið síðastliðin 10 ár, sundurliðað eftir árum, annars vegar vegna utanlandsferða þingmanna á vegum þingsins og hins vegar utanlandsferða embættis forseta Alþingis.
Yfirlitið sýnir kostnað við ferðir þingmanna og embættis forseta Alþingis og eru upphæðir á verðlagi hvers árs. Undir kostnað við ferðir þingmanna fellur jafnframt kostnaður við ferðir starfsfólks sem fylgja þingmönnum. Þá fellur jafnframt undir kostnað við ferðir á vegum embættis forseta allur kostnaður við ferðir þeirra þingmanna sem eru í fylgd með forseta ásamt starfsfólki sem er með í ferð.