„Ég hef engra hagsmuna að gæta gagnvart þessu fyrirtæki,“ sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á opnum fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun þar sem frumkvæðisathugun á hæfi hans til sinna sínum störfum vegna tengsla sinna við Samherja.
Kristján Þór sagði að einu tengsl sín við fyrirtækið nú væri vinátta við Þorstein Má Baldvinsson, fyrrverandi forstjóra Samherja og einn aðaleiganda fyrirtækisins, sem steig tímabundið til hliðar úr forstjórastóli eftir opinberum fjölmiðla á athæfi Samherja í Namibíu, þar sem fyrirtækið er grunað um að hafa greitt mútur fyrir aðgang að fiskveiðikvóta. Samherji er einnig grunaður um að hafa stundað peningaþvætti og skattasniðgöngu. Málefni fyrirtækisins eru til rannsóknar í Namibíu, Angóla, Í Noregi og á Íslandi.
Kristján Þór sagði að það gæti verið erfitt að greina á milli þess hvenær maður er að tala við vin og hvenær maður er að tala við forsvarsmann fyrirtækis. Þetta væri einn og sami maðurinn. Hann teldi það hluta af minni athafnaskyldu sem ráðherra að koma sjónarmiðum á framfæri þegar mál koma upp sem gætu skaðað orðspor íslensks sjávarútvegs. Á þeim forsendum hefði hann sett sig í samband símleiðis við Þorstein Má þegar málefni Samherja komust í hámæli. Það símtal, þar sem Kristján Þór spurði Þorstein Má meðal annars hvernig hann hefði það, hefur verið harðlega gagnrýnt af mörgum, meðal annars af þingmönnum stjórnarandstöðunnar.
„Eðli málsins samkvæmt hefur þetta verið ofarlega í huga mér, vegna minna fyrri starfa,“ sagði Kristján Þór á fundinum í morgun. Hann rifjaði upp að hann hefði sýnt frumkvæði af því að birta upplýsingar um tengsl sín við Samherja þegar hann tók við embætti ráðherra í desember 2017, en Kristján Þór var meðal annars stjórnarformaður fyrirtækisins um tíma fyrir tæpum tveimur áratugum.
„Almenna hæfið, í mínum huga, það er enginn vafi um það,“ sagði Kristján Þór þegar Andrés Ingi Jónsson, nefndarmaður í nefndinni, spurði hann um hæfi hans til að taka ákvarðanir um sjávarútveg í heild sinni. Hann teldi sig vera hæfan til að taka slíkar ákvarðanir.
Frumkvæðisathugun á hæfi
Forsaga málsins er sú að þrír þingmenn samþykktu á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þann 6. desember síðastliðinn að hefja frumkvæðisathugun á því hvernig Kristján Þór myndi láta meta hæfi sitt vegna tengsla sinna við útgerðarfyrirtækið Samherja og hvort tilefni hefði verið fyrir slíkri athugun í ráðherratíð hans.
Fram kom í fréttum um málið að Þórhildur Sunna yrði ekki með framsögu málsins heldur Líneik Anna. Þórhildur Sunna sagði í samtali við RÚV í síðasta mánuði að það hefði ekki verið vilji til þess hjá meirihluta nefndarinnar að hún hefði framsögu um málið. „Þeim finnst ég hafa gert upp hug minn varðandi það hvort ráðherrann sé vanhæfur.“ Hún lagði til að Andrés yrði framsögumaður en á það féllst meirihlutinn heldur ekki.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið svaraði spurningum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrr í þessari viku. Þórhildur Sunna sagði í samtali við RÚV að þau svör væru ekki nægjanleg. Kristján Þór var því boðaður á fund nefndarinnar til að gefa nefndarmönnum frekari upplýsingar um hæfi sitt í málum sem tengjast Samherja.
Þegar vikið sæti í ákveðnum málum
Greint var frá því 20. desember síðastliðinn að Kristján Þór hefði ákveðið á grundvelli stjórnsýslulaga að víkja sæti við meðferð og töku ákvarðana í fjórum stjórnsýslukærum tengdum Samherja. Þess í stað var samþykkt á ríkisstjórnarfundi að Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, myndi fara með málin.
Kristján Þór sagði á fundinum í morgun að ástæða þess að hann hefði óskað þess að víkja sæti við kærumeðferð þeirra mála sem greint hafi verið frá væri ekki síst sá að það skipti ekki síst máli að sá sem tekur ákvörðunin lítur á sitt hæfi heldur líka hvernig hún horfir við borgurunum.
Hann muni áfram meta hæfi sitt í hverju tilviki ef mál tengd Samherja koma aftur upp.